Athygli vekur þegar Ögmundur Jónasson, sá fyrirferðarmikli sósíalistaleiðtogi til áratuga, hjólar í sinn gamla flokk og forystu hans í nýútkominni ævisögu sinni. Leggur hann til að Vinstrihreyfingin - grænt framboð stytti nafn sitt og kasti þeim hlutum þess sem eigi ekkert skylt við stefnu flokksins. Framvegis skuli flokkurinn bera nafnið Hreyfingin framboð (HF).

Með þessu lýsir hann afdráttarlaust þeirri skoðun sinni að flokkur hans hafi svikið grunngildi sín, snúið baki við vinstri stefnu og gleymt grænu áherslunum. Nú sé svo komið að flokkurinn snúist bara um völd til handa formanninum – snobbstöðu, pjatt og prjál með fínum ráðherrabíl og bílstjóra.

Fleiri áhrifamenn í VG taka í svipaðan streng. Svik við grunngildi eru hins vegar vandamál víðar en í VG.

Þegar ég ólst upp í Sjálfstæðisflokknum litu flokksmenn svo á að flokkurinn stæði öðru fremur fyrir tvennt. Annars vegar varðstöðu gegn kommúnisma, innanlands og erlendis í samstarfi við vestrænar lýðræðisþjóðir. Hins vegar baráttu fyrir frjálsu og mannúðlegu samfélagi þar sem frjálst framtak fengi að njóta sín og velferð allra væri tryggð.

Flokkurinn stóð fastur á stefnu sem myndaði skjaldborg gegn vinstri öfgum og ríkisforsjá. Nú er hins vegar svo komið að Sjálfstæðisflokkurinn leiðir formann íslenskra sósíalista til forystu fyrir ríkisstjórn þótt sósíalistar séu langminnsti flokkurinn í þriggja flokka stjórn!

Hvers vegna hafa Sjálfstæðismenn ekki forsætisráðherrann, með 17 þingmenn á móti einungis 8 hjá VG sem tapaði stórt í síðustu kosningum? Kannski skiptir það engu máli, flokkarnir eru orðnir eins og una sér best undir sömu sæng.

Er kannski bara beðið eftir sameiningu Sjálfstæðisflokks og VG, og þá undir formennsku Katrínar Jakobsdóttur? n