Á morgun 10. desember er Al­þjóð­legi mann­réttinda­dagurinn og á­stæða til að velta upp spurningunni: Eru mann­réttindi fyrir alla?

Fólk sem glímir við heimilis­leysi og vímu­efna­fíkn er alls konar, en oft er dregin upp frekar ein­hæf mynd af því fólki sem fellur undir áður­nefnda skil­greiningu. Af hverju ætli það sé? Er það þekkingar­leysi á högum þessa fólks eða er það staðal­í­myndin sem fólk hefur úr bíó­myndum eða bókum? Hér eru margar spurningar settar fram í því skyni að rýna í af hverju ofan­greint fólk nýtur ekki sömu réttinda í okkar sam­fé­lagi eins og allir aðrir. En hverjir eru „allir aðrir“? Eru það þau sem stunda vinnu, stunda nám, borga skatta til sam­fé­lagsins, lenda ekki upp á kant við lögin, þurfa ekki að nýta sam­fé­lags­lega sjóði og eru ekki hús­næðis­laus? Það eru ekki margir í sam­fé­laginu sem falla undir þessa upp­talningu, ein­fald­lega vegna þess að fólk er alls konar og er í alls konar að­stæðum. Þú getur verið í vinnu en samt átt við á­fengis­vanda að stríða og þurft að fara í með­ferð, þú getur misst vinnuna, misst heilsuna, slasast, orðið fyrir á­falli og svo mætti lengi telja.

Á meðan dóu ein­staklingar

Ég vinn með fólki sem glímir við heimilis­leysi og/eða glímir við fíkni­vanda. Við sem vinnum í þessum mála­flokki vorum ein­stak­lega glöð þegar Reykja­víkur­borg setti fram stefnu í mála­flokknum og réðist í að kaupa 20 smá­hýsi til að mæta þörfum þess hóps sem minna má sín í þjóð­fé­laginu. Við biðum með eftir­væntingu eftir að húsunum yrði komið niður um alla borg og að minnsta kosti 20 ein­staklingar myndu fá þak yfir höfuðið. En hver varð raunin? Fólkið í sam­fé­laginu, sam­fé­lagi okkar allra, spyrnti niður fótum og mót­mælti því að smá­húsin kæmu í þess hverfi. Húsin stóðu í eitt ár mann­laus á meðan rifist var um stað­setningu þeirra. Á meðan dóu ein­staklingar, sváfu úti, nýttu neyðar­skýli eða bjuggu við ó­tryggar að­stæður og of­beldi.

Mig langar að gefa ykkur inn­sýn í líf þessa fólks. Þau eru nefni­lega alls konar eins og „við öll hin“. Þau eiga ekki rödd, þau berjast ekki fyrir sínum rétti, þau eiga ekki sinn máls­vara, þau gera ekki kröfur, þau lifa í skömm. Af hverju lifa þau í skömm? Það er vegna þess að sam­fé­lagið lítur á þau sem ó­hreinu börnin hennar Evu með minni réttindi en við hin, þau hafa ekki sömu mann­réttindi og „við hin“.

Við sem vinnum með heimilis­lausum þekkjum sögur þeirra, sorgir og þrár, vonir þeirra og væntingar og drauma um betra líf. Því hana eiga þau öll sam­eigin­lega, vonina um betra líf. Þau eru börn sem fengu aldrei tæki­færi, þau eru börn sem ólust upp við of­beldi og van­rækslu, neyslu for­eldra, fá­tækt og jaðar­setningu. Sum hver glímdu og glíma enn við geð­rænan vanda sem hrakti þau út á jaðarinn. Hvar var sam­fé­lagið þá til að grípa inn í? Flótti þessa barna var að deyfa sig, þeim var vísað úr for­eldra­húsum, ólust jafn­vel upp hjá fóstur­for­eldrum, voru á stofnunum eða í öðrum úr­ræðum í barna­verndar­kerfinu. Sum ólust þó upp við góðar að­stæður, eiga og áttu góða for­eldra og traust heimili. Þau börn glímdu við annað, til að mynda geð­rænan vanda og leiddust út í fíkn í kjöl­far þess. Eins og áður sagði þá er fólkið í sam­fé­laginu ekki eins­leitur hópur.

Við getum öll lent í sömu að­stæðum

Fólk sem glímir við heimilis­leysi og/eða fíkni­vanda á for­eldra, syst­kini, maka og börn eins og við öll hin. Þau eru elskuð og fólkinu þeirra þykir vænt um þau. Að­stand­endum sárnar þegar al­menningur talar niður til þeirra, vilja þau ekki sem ná­granna eða vilja ekki vita af þeim. Sjá ekki mann­eskjuna á bak við brostin augu von­leysis og sorgar. Það er svo mikil­vægt að al­menningur geri sér grein fyrir að við getum öll lent í sömu að­stæðum, for­eldrar eða syst­kin okkar eða börn. Reynum að setja okkur í þeirra spor.

Engir af mínum skjól­stæðingum vilja vera þar sem þeir eru. Þau binda öll vonir við betra líf, þegar þau til dæmis fá hús­næði, skilning, virðingu og tæki­færi á nýju lífi. Allar rann­sóknir sýna okkur að þegar fólk fær hús­næði þá finnur það þörf hjá sér til að minnka neyslu og bæta líf sitt.

Ég þekki þessa ein­stak­linga, sum nota jú vímu­efni, sum hafa beitt of­beldi og brotið af sér í þeim ömur­legu að­stæðum sem þau þurfa að lifa í dags dag­lega. Sum nota ekki vímu­efni, beita ekki of­beldi eða fremja af­brot. Mörg þeirra sofa í bíla­kjöllurum, gisti­skýlum, inni á fólki sem beitir þau of­beldi, bílum sínum eða úti, jafn­vel undir beru lofti. Þau eiga öll sína sögu, oftar en ekki með slóð á­falla. Ég skil vel að þau séu ó­stöðug, ógni, beiti of­beldi, séu ör­væntingar­full og hrædd. Ég myndi sjálf vera þar ef ég væri í þeirra sporum.

Munum að öll eigum við rétt á mann­réttindum, sama hvað.