Ósýnileiki kvenna virðist ætla að verða lífseigur. Í vikunni fóru sem eldur um sinu á samfélagsmiðlum nýlegar ljósmyndir úr fjölmiðlum þar sem konur voru í forgrunni án þess að þeirra væri getið í myndatexta. Á einni myndinni mátti sjá sitja í þingsal Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra. Undir myndinni stóð: „Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins. Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.“ Vissulega mátti sjá Gunnar Braga og Óla Björn á myndinni; það glitti í Gunnar Braga í sætaröð fyrir aftan Áslaugu Örnu og Óla Björn á aftasta bekk. En myndin var af Áslaugu Örnu. Á annarri mynd gaf að líta rithöfundinn Jónínu Leósdóttur þar sem hún sótti útgáfuhóf rithöfundarins Lilju Sigurðardóttur í síðustu viku. Undir myndinni stóð: „Sigurjón Kjartansson.“ Ef vel var að gáð – helst með aðstoð stækkunarglers – mátti sjá Sigurjón þar sem hann stóð handan Jónínu, úr fókus.

Yfirskrift albúmsins á Facebook sem geymir þessar grátbroslegu – eða kannski bara grátlegu – myndir er: „Eru konur til? Heita þær eitthvað?“ Þótt spurningarnar séu í gamni gerðar er alvara á ferðum.

„Svona góðar“

Á dögunum voru Nóbelsverðlaunin í bókmenntum veitt pólsku skáldkonunni Olgu Tokarczuk. Af því tilefni tjáði Anders Olsson, aðalritari Sænsku akademíunnar, sig um mikilvægi þess að auka á fjölbreytni meðal vinningshafa Nóbelsverðlaunanna: „Hingað til hafa verðlaunin verið karllæg,“ sagði Olsson. „En nú þegar svona margar konur eru farnar að vera svona góðar vonum við að verðlaunin verði víðfeðmari.“

Konur hafa alltaf verið skáld. Þótt Sænska akademían virðist telja að fyrst núna – árið 2019 – séu að koma fram á sjónarsviðið konur sem kunna að skrifa hafa alltaf verið til konur sem hafa verið „svona góðar“.

Hvað veldur því að ein vitrasta – og virtasta – stofnun veraldar telji að konur séu nýjar af nálinni?

Dökkur skuggi

Í skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur, Ungfrú Ísland, segir frá ungri skáldkonu utan af landi sem flyst til Reykjavíkur árið 1963. Í höfuðborginni er konunni og hæfileikum hennar hins vegar tekið fálega. Í bókinni segir: „Karlmenn fæðast skáld. Þeir eru um fermingu þegar þeir gangast við því óumflýjanlega hlutskipti sínu að vera snillingar. Það skiptir engu hvort þeir skrifa bækur eða ekki.“

Frá örófi alda hefur veröldin verið á sjálfstillingu sem kallast: Karlmenn. Eins og fyrrnefndar blaðaljósmyndir sýna er nærvera karlmanns nóg til að varpa svo dökkum skugga yfir konu að hún sést ekki lengur.

En konurnar eru þarna. Þær eru dómsmálaráðherrar og skáld og allt þar á milli. Það er hins vegar ekki sama Jón og séra Jón; eða öllu heldur Jón og Jónína. „Þegar karlmaður skrifar um eitthvað eins og uppvaskið kallast það realismi,“ er haft eftir rithöfundinum Margret Atwood. „Þegar kona skrifar um uppvaskið þykir það erfðafræðilegur annmarki.“

Mergurinn málsins er þessi: Handtak karlmanns nýtur virðingar. Sama handtak konu gerir það ekki.

Það eru ekki konur sem eru nýjar af nálinni. Þær hafa alltaf verið til, þær hafa alltaf borið nöfn og þær hafa alltaf verið skáld. Virðing fyrir konum og störfum þeirra er hins vegar nýjung. Sú nýjung hefur þó ef til vill ekki hlotið jafnmikla útbreiðslu og talið var. Ætli hún sé ekki jafnútbreidd og nöfn kvenna í myndatextum fjölmiðla.