Í pólitík snýst nútíðin um að bæta framtíðina. En þungbærust er þátíðin.

Þátíðin er til dæmis sá drösull sem Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur að draga því í hverjum borgarstjórnarkosningum á fætur öðrum eru grafin upp upp árin þegar hann átti landsfræga forystumenn og meirihluta í höfuðstaðnum. Það er sama hve vel frambjóðendur standa sig; alltaf skulu gullaldartímar flokksins rifjaðir upp til samanburðar.

En harmur Sjálfstæðisflokksins bliknar í samanburði við þátíðarkvalir franskra eðalkrata þessa dagana.

Flokkur á flugi

Sósíalistaflokkurinn franski á sér glæsta fortíð. Hann var stofnaður 1969 og komst til valda 1981 undir forystu Francois Mitterand, sem var forseti Frakklands samfleytt í 14 ár. Hans er minnst fyrir öfluga forystu, bæði innanlands og utan.

Francois Hollande var síðan forseti árin 2012 til 2017. Hann var talinn minni spámaður en nafni hans, en var forseti þó. Fólk man eftir honum vegna næturheimsókna hans á mótorhjóli til hjákonu sinnar í París.

Sambýliskona hans í 20 ár, hafði verið Segolene Royal. Hún var athyglisverðari stjórnmálamaður en hann og var árið 2007 fyrst franskra kvenna í framboði til forseta en tapaði fyrir Nicolas Sarkozy. Þau Hollande slitu samvistum í kjölfar ósigurs hennar.

Flokkurinn ól einnig upp forvígismenn á Evrópu- og alþjóðavísu, eins og Jacques Delors, sem var forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 1985 til 1994 og Pascal Lamy, framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar frá 2005 til 2013.

2017; þeir missa hæð

Eins og þau vita sem áttu gamlan Citroen eða hafa týnt tösku á Charles De Gaulle flugvellinum í París, velja Frakkar ekki alltaf einföldustu lausnina. Þeir fara stundum Fjallabaksleið og svo er um kosningafyrirkomulagið.

Í Frakklandi er kjörtímabilið fimm ár, bæði fyrir forseta og þing. Á kosningaári er kosið í tveimur umferðum til forseta í maí og aftur í tveimur umferðum til þings í júní. Á þennan hátt er reynt að auka líkur á að flokkur nýkjörins forseta geti tryggt honum þingmeirihluta og starfsfrið í fimm ár. Ef forsetinn lendir hinsvegar í að fá þing sem er andsnúið honum er það kölluð „sambúð“ (cohabitation) og þykir hin mesta ógæfa.

Vandræði Sósíalistaflokksins byrjuðu í aðdraganda forsetakosninganna 2017. Maður er nefndur Emmanuel Macron. Hann hafði verið félagi í flokknum og ráðherra í ríkisstjórn Francois Hollande en geystist fram á sviðið 2016 með nýjan flokk.

Franskir stjórnmálamenn hafa gjarnan þennan háttinn á. Ef þeir stofna ekki nýja hreyfingu, breyta þeir að minnsta kosti um nafn á þeirri gömlu. Í brjósti þeirra flestra býr lítill keisari. Napóleon flúði einangraður og útskúfaður frá eyjunni Elbu í febrúar 1815 með 700 manns. Eftir 20 daga kom hann til Parísar, tók við stjórn ríkisins og í maílok hafði hann 200 þúsund manns undir vopnum. Hann er fyrirmyndin eilífa.

Flokkurinn, sem Macron stofnaði var í fyrstu talinn vinstri miðjuflokkur. Honum gekk glimrandi vel. Í seinni umferð forsetakosninganna í maí 2017 var kosið á milli tveggja, Macron og Marine Le Pin, formanns Þjóðfylkingarinnar, hægri flokks, sem lengst af hafði gert garðinn frægan með öfgafullri andstöðu við innflytjendur og íslamstrú.

Macron sló í gegn. Fyrst sigraði hann í forsetakosningum og fylgdi því eftir með því að ná meirihluta á þinginu í kosningum rúmum mánuði síðar. Hann lenti því ekki í „sambúð“. Macron hafði tögl og hagldir, réði bæði ríkisstjórn og þingi. Sósíalistaflokkurinn réði ekkert við sinn fyrri liðsmann. Napoleon hefði ekki gert betur.

2022; brotlending

Fimm árum seinna var aftur komið að ögurstundu í franskri pólitík. Myndi Macron ná endurkjöri? Í sex áratugi hafði þremur forverum hans tekist það. Einn þeirra var sjálfur hershöfðinginn og þjóðhetjan Charles de Gaulle og hinir voru Francois Mitterand og Jacques Chirac. Fjórum hafði hins vegar fatast flugið.

Áratugum saman skiptust tvær fylkingar um að fara með völdin í Frakklandi. Annars vegar var hægri blokkin, þar sem fóru hugmyndafræðilegir arftakar de Gaulle. Hinsvegar var Sósíalistaflokkurinn.

Í fyrri umferð forsetakosninganna sem fram fóru í maí síðastliðnum varð ljóst að þessir gömlu flokkar áttu í miklum vandræðum. Kratarnir voru beinlínis í lífshættu. Frambjóðandi þeirra var Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar frá 2014, fyrsta konan til að gegna því embætti og öflugur stjórnmálamaður. En hún fékk einungis 1.75% atkvæða og lenti í 10. sæti af 12.

Frambjóðandi hægri flokkanna var Valerie Pecresse, þaulreyndur ráðherra úr ríkisstjórnum hægri flokkanna. Hún fékk 4.8% atkvæða og lenti í 5. sæti.

Þetta var hrakleg útkoma fyrir gömlu fylkingarnar og svo slæm að hvorug þeirra náði atkvæðalágmarkinu 5%, sem þarf til að fá ríkisstuðning til að greiða kosningaskuldir. Flokkarnir sem vafalaust samþykktu þennan þröskuld á sínum tíma til að koma í veg fyrir að pólitískir undanvillingar og rugludallar kæmust á ríkisjötuna, hnutu nú um hann sjálfir.

Emmnúel Macron var þar með búinn að rústa landslagi stjórnmálanna. Leikurinn frá 2017 endurtók sig. Macron og Marine Le Pin tókust á í seinni umferð forsetakosninganna og Macron sigraði. En einn var þó munurinn. Macron fékk minna fylgi en 2017 en Marine Le Pin jók sinn hlut.

Vinstri menn trúðu því nefnilega ekki lengur að Macron væri þeirra megin við miðju. Hann hafði til dæmis lagt til að eftirlaunaaldur yrði hækkaður úr 62 árum í 65, og þeir töldu hann kominn til hægri.

Marine Le Pin naut þess hins vegar að í aðdraganda fyrri umferðar forsetakosninganna hafði hún fengið samkeppni frá hægri. Þar var á ferðinni rithöfundur og sjónvarpsmaður að nafni Eric Zemmour. Hann gekk miklu lengra í andúðinni á innflytjendum og múslimum en hún og lagði m.a. til að stofnað yrði „útflytjendaráðuneyti“ sem yrði falið að flytja eina milljón þessara óvelkomnu borgara úr landi. Og hann ataðist út í feminista og taldi að feðraveldinu væri ógnað, einni af undirstöðum heilbrigðs heimilislífs.

Mogginn hefði trúlega tengt við blogg Erics Zemmour hefði hann þess óskað og á góðum degi jafnvel birt glefsur úr því í Staksteinum. Hins vegar er hann tæplega nógu orðljótur til að verða sögukennari í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.

En með Zemmour hægra megin við sig hljómaði Marine Le Pin eins og hófsemin ein, hætti að agnúast út í innflytjendur og fór að tala um aðgerðir til að lækka framfærslukostnað heimilanna. Þannig varð hún ásættanlegur valkostur fyrir hægrisinnaða kjósendur.

Naglinn í líkkistuna?

Um næstu helgi, sunnudaginn 12. júní, verður haldin fyrri umferð þingkosninganna. Hvað eru vinir mínir og gömlu átrúnaðargoðin, frönsku kratarnir, að gera?

Einn gamalreyndur og róttækur ræðuskörungur, Jean-Luc Melenchon, hefur alltaf talið að hans tími myndi koma. Hann er á aldur við mig, hefði verið í þriðja bekk í MR þegar ég var í sjötta og trúlega verið í leshring hjá Æskulýðsfylkingunni niðri í Tjarnargötu.

Hann var í gamla daga í baráttunni með krötunum en árið 2016 stofnaði hann eigin flokk, „Uppreisnargjarna Frakkland“ til að vera maður með mönnum. Hann bauð sig fram í fyrri umferð forsetakosninganna í maí síðastliðnum og var með hörkufylgi, 22% á móti 28% hjá Macron, og vantaði aðeins um eitt prósent til að skáka Marine Le Pin og komast þannig í úrslit í seinni umferð.

Á franska þinginu eru eru 577 sæti og kosið er í einmenningskjördæmum. Jean-Luc Melenchon er búinn að safna saman vinstri flokkum og stofna breiðfylkinguna NUPES, sem mun bjóða fram í öll sætin. Samið hefur verið um skiptinguna og stillir hans eigin flokkur upp í 326 kjördæmum, Græningjar og umhverfissamtök fá 100 pláss og Kommúnistaflokkurinn hlýtur 50.

Sósíalistaflokkurinn, hefur skráð sig í NUPES og fær náðarsamlegast að bjóða fram í 70 sæti. Þetta þykir mörgum fylgismönnum rýr hlutur fyrir gamla stórveldið. Og til að bæta gráu ofan á svart hefur dómstóll á Parísarsvæðinu þegar þetta er skrifað þremur dögum fyrir kosningar, lýst ákvörðun miðstjórnar flokksins um NUPES þátttöku ólögmæta því þurft hefði samþykkt landsfundar til. Samkvæmt dagblaðinu Le Monde logar flokkurinn nú stafna á milli og forystan hótar aðgerðum gegn andófsmönnum, þ.á.m. sjálfum Francois Hollande.

Óvissan um úrslit þessarar fyrri umferðar þingkosninganna er því talsverð. Samkvæmt xkoðanakönnunum raðast kjósendur í megindráttum í dilka þeirra Macron, Melanchon og Marine Le Pen. NUPES bandalagið, sem heitir fullu nafni „Ný fylking fólksins um félags- og umhverfismál“, hefur verið að bæta við sig í könnunum. Refurinn Melenchon er brattur og segist stefna á að verða forsætisráðherra. Þar með væri Macron neyddur í „sambúð“ með maka sem er eins öndverður honum í skoðunum og hugsast getur og efasemdarmaður um ESB og andvígur NATO.

Skyldi tími Melenchons vera kominn? Enginn veit. Er krataflokkurinn á grafarbakkanum? Enginn veit.

Kosningabaráttan er eins og Reykjanesskaginn. Kvikusöfnun, jarðskjálftahrinur og yfirvofandi gos.

En hvert rennur hraunið?