Allt frá fyrstu lögum um náttúruhamfaratryggingar hér á landi, þ.e. lög nr. 52/1975 um Viðlaga­trygg­ingu Íslands, hefur sérstaklega verið tekið fram að slíkar tryggingar bæti ekki tjón af völdum ofviðra. Í greinargerð með þeim lögum segir m.a. að yrðu ofviðri skilgreind sem náttúru­hamfarir „mundi það fjölga mjög bótaskyldum atburðum og auka umsvif stofnunarinnar, auk þess sem afar erfitt er að skilgreina hugtakið ofviðri“.

Af þessu sést að rökin gegn því að skilgreina ofviðri sem náttúruhamfarir á þessum tíma voru þau, að slíkt myndi kalla á aukna starfsemi Viðlagatryggingar auk þess sem ofviðri væru illa skilgreind fyrirbæri. Þegar þessi lög voru endurskoðuð 1992 var það sama upp á teningnum, að tjón af völdum vinds félli ekki undir bótaskyldu hjá Viðlagatryggingu Íslands. Og við enn ítarlegri endurskoðun laganna 2018 og nafnbreytingu stofnunarinnar virðist ekki hafa komið til álita að breyta þessu.

Afstaða Veðurstofu Íslands

Lögin frá 1975 voru sett í framhaldi af eldgosinu í Heimaey 1973 og snjóflóðinu í Neskaupstað 1974 en báðir atburðir ollu gríðarmiklu eignatjóni, einkum eldgosið. Mér er kunnugt um að veðurstofustjóri á þessum tíma taldi það undrum sæta og mótmælti því að þessi nýja Viðlagatrygging ætti ekki að bæta tjón af völdum ofviðra sem væru þó helsti tjón- og slysavaldur á Íslandi. Má í því sambandi nefna að slysfarir á sjó sem oftast stafa af ofviðrum höfðu á þessum tíma krafist á fjórða þúsund mannslífa hér við land frá aldamótunum 1900 auk allra mannskaða og tjóna á eignum og mannvirkjum á landi á sama tíma.

Ég þekki ekki hvort umsagnar var leitað hjá Veðurstofunni við breytingarnar sem gerðar voru á lögunum 1992 og 2018 en ljóst er að löggjafinn hefur í hvorugt skiptið talið ástæðu til að breyta skilgreiningunni á náttúru­ham­förum.

Hvað eru náttúruhamfarir?

Í fyrrnefndum lögum eru eftirtalin fyrirbæri skilgreind sem náttúruhamfarir: Eldgos, jarðskjálftar, skriðuföll, snjóflóð og vatnsflóð. Með svipuðum hætti og sagt er í fyrrnefndri greinargerð með lögunum frá 1975 um ofviðri, má segja að erfitt geti verið að skilgreina þessi hamfarahugtök.

Í mínum huga eru ekki öll eldgos náttúruhamfarir, ekki heldur allir jarðskjálftar né öll skriðuföll, snjóflóð og vatnsflóð. Mestur hluti þessara fyrirbæra veldur ekki beinu tjóni á mannvirkjum eða öðrum eignum fremur en að nokkuð hvass vindur er oftast ekki tjónvaldur. Allir þessir atburðir verða hins vegar að náttúruhamförum þegar þeir ná þeim styrk eða aðstæðum að valda manntjóni, eignatjóni eða tjóni á margs konar mannvirkjum og ýmsum innviðum samfélagsins. Það á einnig við um vindinn sérstaklega þegar styrkur hans fer yfir það sem mannvirki, ýmsir eignarhlutir og innviðir samfélagsins almennt þola.

Hamfaraofviðri

Í dag er vindhraði mældur sem meðal­vindhraði í 10 mínútur og hviður upp á fáar sekúndur á hundruðum veðurstöðva um allt land. Engin rök eru lengur fyrir því að erfitt sé að skilgreina hugtakið ofviðri eins og kannski var fyrir meira en hálfri öld þegar vindmælar voru einungis á örfáum stöðum á landinu og vindhviður sem eru aðaltjónvaldurinn almennt ekki mældar. Að mati undirritaðs leikur ekki vafi á því að ofviðrið sem gekk yfir landið austanvert helgina 24.–25. september sl. voru víðtækar náttúruhamfarir. Þegar hús og ýmis mannvirki eyðileggjast eða laskast verulega, bátar brotna í höfnum, tré brotna eins og eldspýtur eða rifna upp með rótum og fjöldaeyðilegging verður á bifreiðum vegna grjótfoks auk þess sem innviðir eins og veitukerfi springa og rafkerfi heilu landshlutanna slær út um lengri eða skemmri tíma, eru það sannarlega náttúruhamfarir.

Svipað má raunar segja um ofviðrið sem gerði norðanlands 10.–12. desember 2019 en þá bættist fannfergi og ísing við veðurhæðina. Hvorutveggja voru þessi veður með vindstyrk sem jafna má við 4. stigs fellibyl, hliðstæðan þeim sem gekk yfir Kúbu og Flórída fyrir skömmu. Fráleitt er að náttúruhamfaratrygging nái ekki yfir margs konar stórtjón við slíka atburði.

Lokaorð

Hér með er skorað á stjórnvöld að endurskoða sem fyrst lögin um Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Auk þess að skilgreina ofviðri sem náttúruhamfarir þarf líka að endurskoða þá breytingu sem gerð var á lögunum 2018 að fella út sérfræðilega aðkomu Veðurstofu Íslands að svokallaðri úrskurðarnefnd náttúruhamfaratryggingar, sbr. 19. gr. laganna. Hafa má í huga að Veðurstofan vaktar í reynd allar tegundir náttúrvár á Íslandi og varar við þeim þegar þannig vill verkast. Slíkt samþætt fyrirkomulag á sér sennilega ekki hliðstæðu í heiminum. Það er því í hæsta máta óeðlilegt að fulltrúi þessarar stofnunar komi ekki að úrskurðarnefndinni eins og reyndin hafði verið í eldri lögum allt frá 1992.