Nú þegar hjól bólusetninganna er farið að snúast og þjóðin er hægt og rólega að verða veiruvarin er áhugavert að horfa yfir liðið ár til þess að draga lærdóm. Einn þáttur þjóðlífsins sem orðið hefur fyrir barðinu á COVID er lífslokaferlið. Það má hrósa heilbrigðisstofnunum fyrir það hve mun betur tókst í seinni bylgjunni að hlúa að deyjandi fólki með nærveru nánustu ástvina þrátt fyrir ástandið.

Gildi ástvinanærveru við deyjandi fólk hefur fengið endurnýjaða staðfestingu. Jafnframt höfum við fundið hvað útfarir skipta okkur miklu máli sem samfélag. Ég tek eftir því núna hvað syrgjendur eru þakklátir og fegnir að mega þó alltént bjóða 150 manns til kveðjustundar. Já, það gat verið býsna f lókið þegar einungis máttu koma 30 manns saman. Það hefur kostað heilmikið sálarstríð og útsjónarsemi þar sem fjölskyldur eru stórar og vinahópar margir að bregðast við fjöldatakmörkunum á kveðjustundum ástvina. Íslendingar eru einkar duglegir við að fylgja samferðamönnum hinsta spölinn og sannleikurinn er sá að í f lestum tilfellum veitir mannfjöldinn syrgjendum mikla huggun.

En í öllum þeim jarðarförum sem ég hef komið að í COVID hef ég ekki heyrt fólk vera áhyggjufullt yfir því að geta ekki haldið stórar erfidrykkjur. Ég hygg að við mættum vel endurskoða hefðir okkar í þeim efnum svo þær undirstriki betur þá staðreynd að öll stöndum við jöfn frammi fyrir dauðanum. Ég man þegar ég var í fyrsta sinn stödd í erfi þar sem einfaldar veitingar voru fram bornar. Það var mér léttir. Gildi erfidrykkjunnar felst í nærveru og samstöðu. Hún er staðfesting á því að við ætlum að halda lífsgöngunni áfram. Hófsemd er virðingarvottur.