Hjúkrunarfræðingar í Bretlandi fóru í tveggja daga verkfall í vikunni. Að sögn Samtaka breskra hjúkrunarfræðinga hefur raunvirði launa félagsmanna þeirra lækkað um tuttugu prósent á síðustu tíu árum.

Kórónaveiruárin afhjúpuðu ólíkt mikilvægi einstakra starfsstétta. Það voru ekki auglýsingahönnuðir eða sjóðstjórar sem báru byrðar heimsfaraldursins á herðum sér. Yfir dimmustu daga faraldursins, þegar útivistarbann ríkti í Bretlandi og einu hljóðin sem bárust utan af götu voru ýlfur sjúkrabíla, sýndi almenningur þar í landi hjúkrunarfólki þakklæti sitt með vikulegu lófataki.

Margir heilbrigðisstarfsmenn tóku gjörningnum þó fálega.

Kaldar, dauðar hendur

Styr hefur staðið um áramótaskaup Sjónvarpsins sem sýnt var á gamlárskvöld. Deilurnar standa þó ekki um hvort skaupið hafi verið fyndið eins og venjan er. Hinn nýi fjölmiðill Heimildin greindi frá því nýverið að leikstjóri skaupsins, Dóra Jóhannsdóttir, hefði gert alvarlegar athugasemdir við framgöngu framleiðslufyrirtækisins S800 sem RÚV fól gerð skaupsins. Dóra sagði framleiðandann hafa þrýst fast á um að tökur á skaupinu færu fram í nýjum miðbæ Selfoss, en í ljós kom að fasteignafélagið sem byggði og á miðbæinn á Selfossi er helmings eigandi í umræddu framleiðslufyrirtæki. Einnig gerði Dóra athugasemdir við duldar auglýsingar og að kröfu hennar um að fá að sjá fjárhagsáætlun hefði verið neitað. En þá er ekki allt talið.

Hársbreidd munaði að hin sívinsæla Spaugstofa hefði hætt við þátttöku í lokalagi skaupsins. Var ástæðan sú að framleiðandinn ákvað að leikurunum yrðu ekki greidd laun fyrir vinnu sína heldur yrði fé í staðinn látið af hendi rakna til góðgerðarmála.

Í vikunni sagði talsmaður verkalýðsfélags heilbrigðisstarfsfólks í Bretlandi „kaldar, dauðar hendur“ í forsætis- og fjármálaráðuneytinu koma í veg fyrir mannsæmandi laun starfsstéttarinnar. Þetta eru þó sömu hendur og klöppuðu fyrir heilbrigðisstarfsfólki í Covid.

Lokalag áramótaskaupsins hefur hlotið mikið lof. En leikarar, listamenn og skemmtikraftar vita – rétt eins og hjúkrunarfræðingar – að lófatak leiðir ekki til magafylli.

„Okkur fannst skrítið og óeðlilegt að við ættum að koma og vinna vinnuna okkar á þessum forsendum,“ sagði Pálmi Gestsson Spaugstofumaður í samtali við Heimildina. Spaugstofan leitaði til Félags íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum. Framkvæmdastjóri stéttarfélagsins brást hart við og sagði „gjörsamlega galið“ hvernig staðið var að málum.

Öllum finnst okkur sjálfsagt að við fáum greitt fyrir vinnu okkar. En þegar kemur að listafólki gegnir öðru máli. Ef undirrituð, sem starfar sem rithöfundur, fengi þúsundkall fyrir hvert það verkefni sem boðist hefði í áranna rás gegn greiðslu á formi „þetta er gott fyrir ferilskrána þína“ eða „börnin/gamalmennin/saumaklúbburinn yrðu þér þakklát“, ætti ég fyrir svo glæsilegri ferð til Tene að hún ylli seðlabankastjóra andvökunótt.

Var tökufólk áramótaskaupsins krafið um sjálfboðavinnu? Bílstjórar? Framkvæmdastjóri framleiðslufyrirtækisins? Þætti í lagi að matvöruverslun hætti einn daginn að greiða starfsfólki á kassa laun en henti nokkrum krónum í Mæðrastyrksnefnd í staðinn?

Leikstjóri áramótaskaupsins segir framleiðendur þess hafa reynt að koma sér undan því að svara spurningum sem komu þeim illa með því að útmála hana sem erfiða í samskiptum. Hún bað fólk að vera á varðbergi þegar reynt væri að „sverta mannorð og þagga niður í konum með eitraðri orðræðu, hegðun og gaslýsingum.“

Ekki verður annað séð en að í veröld fullri af tilætlunarsömum körlum vanti heldur fleiri erfiðar konur en færri. n