Erfiðar erfðir

Tugþúsundir Íslendinga hafa rifið upp rafræn skilríki og tekið þátt í persónuleikaprófi Íslenskrar erfðagreiningar. Bolurinn er því greinilega áfjáður í að kynnast sjálfum sér betur, í það minnsta spenntari en Kári Stefánsson sem segist horfa á heildarmyndina.
Niðurstöðurnar eiga að gefa betri hugmynd um líffræðilegu ferlana að baki persónuleikanum og hvort eða hvernig þeir tengist einhverjum sjúkdómum. Það er hægt að setja spurningarmerki við sjálfsgreiningarhæfni almúgans en vonandi fyrirgefa afkomendur okkar okkur þegar þeir sjá svart á hvítu að við séum uppsprettan að þeim fjölmörgu kvillum sem munu vafalaust plaga þá.

Sjoppuleg líkkista

Sporðdrekinn sem fannst á Akureyri rétt fyrir helgi drapst í haldi lögreglu. Ekki liggur fyrir hvort dánarorsök áttfætta nýbúans hafi verið af náttúrulegum völdum eða hvort slæm fangavist hafi gert útslagið. Það er þó ljóst að hann var að lokum sendur til Reykjavíkur í gömlu hrásalatsboxi. 
Vonandi munu hin stjörnumerkin berjast fyrir betri útfararþjónustu ef ske kynni að þau tækju upp á að drepast fyrir norðan.