Það verða ekki síður sveitarfélögin en ríkissjóður sem munu verða fyrir þungu fjárhagslegu höggi vegna COVID-19 faraldursins. Í minnisblaði Byggðastofnunar til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra er gerð tilraun til að meta áhrif hruns í ferðaþjónustu á sveitarfélögin. Óvissan er auðvitað töluverð en ljóst er að áhrifin verða gríðarleg þótt þau verði mismikil milli landsvæða.

Samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni nam einkaneysla erlendra ferðamanna um 284 milljörðum króna á síðasta ári. Það er rúmur fimmtungur mældrar einkaneyslu á síðasta ári og tæp tíu prósent vergrar landsframleiðslu. Af þessari fjárhæð fóru 109 milljarðar í kaup á veitinga- og gistiþjónustu. Alls keyptu erlendir ferðamenn 87 prósent allra gistinótta á Íslandi á síðasta ári sem sýnir hversu mikið er undir.

Þrátt fyrir átak og hvatningar til Íslendinga um að ferðast innanlands í sumar verður samdrátturinn mikill. Af rúmlega 7,3 milljónum gistinótta erlendra ferðamanna á síðasta ári voru um 40 prósent þeirra nýtt á tímabilinu frá júní til ágúst. Erlendir ferðamenn kaupa þar að auki ýmsa aðra þjónustu og afþreyingu þar sem samdrátturinn verður að sama skapi mjög mikill.

Byggðastofnun dregur upp þrjár sviðsmyndir varðandi atvinnuleysi næstu tólf mánuði. Miðað við þær dragast útsvarstekjur sveitarfélaga samtals saman um 10 til 26 milljarða króna á ársgrundvelli. Til samanburðar gerðu fjárhagsáætlanir yfirstandandi árs ráð fyrir að sveitarfélögin yrðu rekin með samtals 6,7 milljarða króna afgangi á árinu. Þau sveitarfélög sem eru háðust ferðaþjónustu gætu horft upp á tugprósenta lækkun útsvarstekna.

Sveitarfélögin eru í misgóðri stöðu til að takast á við áföll af þessu tagi. Flest eru þau með útsvarsprósentuna í hámarki en möguleikarnir til frekari tekjuöflunar eru takmarkaðir. Að óbreyttu munu þau þurfa að fjármagna tekjuskerðinguna með lántöku og skerðingu á þjónustu. Í nýlegri samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga er það dregið fram að tvö sveitarfélög séu með skuldahlutfall yfir 150 prósent af tekjum. Samkvæmt lögum má skuldahlutfallið ekki fara yfir það mark. Til viðbótar eru tuttugu sveitarfélög með skuldahlutfall upp á 100 til 150 prósent.

Staðan sem blasir við mörgum sveitarfélögum er því ansi erfið. Á sama tíma vinna stjórnvöld að eflingu sveitarstjórnarstigsins til að hægt sé að færa þangað fleiri verkefni.

Hin afar mikilvægu skref sem hafa verið tekin með ákvörðunum um sameiningar sveitarfélaga voru tekin til þess að búa til öflugri sveitarfélög sem gætu veitt íbúum sínum meiri og betri þjónustu. Það væri afar slæmt ef mörg sveitarfélaganna færu löskuð í þá vegferð. Nú þurfa stjórnvöld og sveitarfélögin að finna leiðir til að koma í veg fyrir það.