Það var alltaf viðbúið að það yrði flókið að takast á við aðra bylgju kórónaveirufaraldursins. Þrátt fyrir að það hafi legið skýrt fyrir allan tímann að mögulega þyrfti að herða aftur sóttvarnareglur hefur það reynst mörgum erfitt að takast á við þann veruleika. Vonbrigðin voru mikil enda virtist á tímabili frekar stefna í að létt yrði á aðgerðum en hitt.

Háværar raddir heyrast nú sem gagnrýna þá ákvörðun að liðka fyrir komum ferðamanna til landsins með því að bjóða upp á skimun á landamærum í stað sóttkvíar. Hér hafi hagsmunir ferðaþjónustunnar ráðið en samfélagið allt þurfi nú að takast á við afleiðingarnar. Þær voru þó heldur færri raddirnar sem settu spurningarmerki við þetta þegar ákvörðunin var tekin. Einhverjir hagfræðingar vöruðu þó við og töldu áhættuna of mikla miðað við mögulegan ávinning.

Ákvörðun um opnun landamæranna var hins vegar ekki tekin í tómarúmi. Ríki allt í kringum okkur voru að taka svipaðar ákvarðanir varðandi sín landamæri. Þótt opinberlega hafi stjórnvöld ekki viðurkennt að þrýstingur ferðaþjónustunnar hafi ráðið úrslitum er ljóst að hann hefur skipt miklu.

Stjórnvöld voru því ekki í auðveldri stöðu og vel er hægt að ímynda sér hvernig umræðan hefði þróast ef landamærin hefðu ekki verið opnuð. Þar fyrir utan lá það fyrir þegar öll þessi skref voru tekin varðandi breytingar á fyrirkomulaginu við landamærin að þessu fylgdi ákveðin áhætta.

Undanfarna daga hafa verið töluverðar sveiflur í fjölda einstaklinga sem greinast með smit. Þótt fáir hafi greinst allra síðustu daga er of snemmt að segja til um hvernig þróunin verður. Staðan er enn viðkvæm og lítið þarf til svo að faraldurinn fari á flug.

Þegar faraldurinn kom upp hér síðasta vetur myndaðist gríðarleg samstaða meðal þjóðarinnar og stuðningur við aðgerðir yfirvalda var afgerandi. Þetta hefur verið að breytast enda eru þær erfiðu ákvarðanir sem teknar eru eðlilega ekki hafnar yfir gagnrýni. Nú höfum við reynslu af hinum ýmsu aðgerðum og hvernig þær hafa reynst í baráttunni við veiruna. Öll slík þekking hjálpar til við að ákveða næstu skref.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundinum í gær að það væri stjórnvalda að vega og meta þá kosti sem í boði eru út frá hagsmunum. Það hefur verið talið stjórnvöldum til tekna að þau hafa ekki tekið fram fyrir hendurnar á sérfræðingum eins og raunin er í ýmsum öðrum löndum. Flóknari staða nú og ólíkir hagsmunir sem togast á gera það að verkum að stjórnvalda bíða erfiðar ákvarðanir.