Eftir að hafa vonandi náð að kúpla okkur frá vinnunni og öllu sem henni fylgir í nokkrar vikur er komið að alvöru lífsins enn og aftur. Þessa dagana snýr stór hluti vinnandi fólks hér á landi aftur til starfa og þó að margir hlakki til að komast aftur í sína rútínu þá getur þetta verið stærra skref fyrir aðra. Kannski var búið að vera mikið álag fyrir fríið og þér vex í augum að takast á við verkefnin á nýjan leik.

Hvað getum við gert til að endurkoman í vinnuna verði sem ánægjulegust?

Farðu rólega af stað og stilltu verkefnum þannig upp að þú drekkir þér ekki á fyrsta degi. Það getur verið gott að byrja ekki á mánudegi ef þú hefur verið í lengra fríi. Gefðu þér tíma til að lenda. Byrjaðu á verkefnum dagsins og því sem fyrir liggur, þú átt eftir að ná utan um önnur verkefni smátt og smátt. Svaraðu nýjustu póstunum fyrst því annars gætir þú misst af svörum annarra við eldri póstum og farið að eyða tíma í að leysa mál sem aðrir hafa þegar náð að leysa. Leyfðu þér smá dekur s.s. að kaupa þér góðan kaffibolla á leiðinni í vinnuna eða farðu í göngutúr í hádeginu með skemmtilegum vinnufélaga sem þú hefur saknað. Skipuleggðu eitthvað skemmtilegt eftir fyrsta vinnudaginn svo þú getir hlakkað til.

Hvað geta stjórnendur gert?

Stjórnendur geta stuðlað að því að starfsfólk haldi lengur „hleðslunni“ sem náðist í sumarleyfinu með því að:

Taka vel á móti starfsfólki og gera því kleift að halda rólega af stað eftir fríið sé þess nokkur kostur verkefnalega séð. Þetta getur til dæmis falist í því að gefa starfsfólki færi á að fara yfir póst og eldri óafgreidd mál áður en dagleg rútína hefst með fullum þunga. Leyfa heimavinnu fyrsta daginn ef hægt er til að hjálpa viðkomandi að komast í gang aftur án þess að fara beint í sama farið ef mikil streita var í gangi fyrir fríið. Sýna þolinmæði fyrir minni afköstum fyrsta daginn/fyrstu dagana til að tryggja rólega endurkomu og áframhaldandi meiri orku eftir gott frí.

Það er allra hagur að við náum að halda því orkustigi sem vonandi náðist í fríinu, þannig getum við bæði komið í veg fyrir streitu og aukið afköst. Á forvarnarvefsíðu VIRK, www.velvirk.is, má síðan finna ótal ráð til að stuðla að vellíðan í starfi.