Afstaða almennings til kynferðisbrota hefur breyst verulega á síðustu árum. Me-too-bylgjan nafnlausa afhjúpaði sáran vanda sem lengi hafði kraumað undir niðri í samfélaginu. Á síðustu vikum hafa samfélagsmiðlar og aðrir fjölmiðlar síðan greint frá brotum nafngreindra einstaklinga þar sem bæði þolendur og gerendur koma við sögu. Málin eru af ýmsum toga, alvarleg brot í bland við ámælisverða eða siðferðislega ranga hegðun, sem ekki endilega er refsiverð háttsemi.

Sammerkt með frásögnunum öllum er vanmáttur samfélagsins að takast á við mál af þessu tagi. Þolendur veigra sér við að tilkynna eða kæra málin og rannsóknir sýna að mörg mál sem þó eru kærð eru felld niður og tiltölulega fá kynferðisbrotamál enda með sakfellingu. Ýmsar réttarbætur hafa þó orðið á síðustu árum eins og nýtt ákvæði um samþykki en langt virðist samt í land að ná fram réttlæti fyrir þolendur. Því viljum við velta því upp hvort önnur þolendavænni úrræði kunni að finnast?

Á síðustu áratugum hefur uppbyggileg réttvísi rutt sér til rúms víða erlendis með góðum árangri. Ýmsar útgáfur tíðkast. Í grundvallaratriðum snýst uppbyggileg réttvísi um þarfir þolandans og viðleitni samfélagsins til að draga úr þjáningu hans. Að gerandinn taki ábyrgð á gjörðum sínum og hvaða afleiðingar hegðanin hefur haft á þolandann. Gerendur og þolendur eru þannig leiddir saman fyrir tilstilli sáttaaðila sem áður hefur gengið úr skugga um að gerandinn hafi játað sök sína og jafnframt lýst sig reiðubúinn til að taka ábyrgð á brotinu og gera sitt til að bæta þolandanum miskann. Samþykki þolanda fyrir þessari lausn er ætíð lykilatriði í sáttamiðlun og forsenda þess að sátta er leitað.

Hlutverk sáttaaðilans er brýnt og jafnræðis verður að gæta milli aðila. Mikilvægt er að sáttamiðlun í kynferðisbrotamálum sé í höndum sérfróðra aðila sem hafa þekkingu á eðli kynbundins ofbeldis. Valdamisvægi aðila er oft mikið í málum af þessu tagi og því brýnt að tryggja öryggi brotaþola.

Sáttamiðlun getur verið hluti af réttarvörslukerfinu þar sem lögregla eða saksóknari vísa málum í sáttaferli eða verið alveg utan kerfisins þar sem sérhæfðir aðilar taka málin að sér ef mál hefur ekki ratað inn í réttarvörslukerfið. Samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara frá því í mars 2021 er lögreglu heimilt að beita sáttamiðlum í ýmsum brotaflokkum almennra hegningarlaga en þó skal ekki beita sáttamiðlun vegna brota er falla undir kynferðisbrotakafla laganna, að undanskildum blygðunarsemisbrotum. Telja höfundar að mögulega þurfi að heimila lögregluembættunum að beita einnig sáttamiðlum vegna umræddra brota.

Vægari kynferðisbrot geta að mörgu leyti verið heppileg fyrir sáttamiðlun þar sem hefðbundin leið gegnum réttarvörslukerfið er yfirleitt bæði þung og tímafrek en jafnframt verulega íþyngjandi upplifun fyrir þolendur. Kröfur um sönnunarbyrði í sakamálum eru stífar enda eiga þær að vera það. Í þessum málaflokki er oftar en ekki um að ræða orð gegn orði, játningar fátíðar og engin vitni. Meginregla sakamálaréttar er að allur vafi um sekt skuli metinn sakborningi í vil og þess vegna er gerð sú krafa af réttarvörslukerfinu að lögfull sönnun teljist komin fram svo málið komist fyrir dóm og sakfelling náist. Stálin stinn mætast í réttarsalnun og þolandinn situr oft uppi með miskann og skömmina en engan lögformlegan geranda. Þolendur veigra sér því oft við að feta þessa grýttu leið einkum þegar um vægari brot er að ræða en einnig þegar þolandi og gerandi tengjast vina- eða fjölskylduböndum.

Sáttamiðlun getur opnað nýja leið fyrir bæði þolendur og gerendur. Brotaþoli og brotamaður fá þannig aukið forræði yfir málinu og það verður þeirra hlutskipti að komast að samkomulagi í sameiningu um sátt fyrir milligöngu sáttaaðila. Vert er að ítreka að enginn er neyddur í sáttameðferð heldur er það leið sem þarf að eiga sér stað með fullum vilja beggja. Í sáttameðferð viðurkennir gerandi að hafa gert á hlut þolandans og lýsir sig reiðubúinn að bæta fyrir skaðann. Ef samkomulagið mistekst fer málið sína leið í gegnum réttarvörslukerfið en ef það tekst vel má sjá fleiri mál ljúka með þeirri viðurkenningu sem margir þolendur óska sérstaklega eftir, það er að gerandi viðurkenni brot sitt milliliðalaust.

Sá stuðningur sem þolendur kynferðisbrota hafa fengið í kjölfar Me-too-bylgjunnar mun án vafa ýta undir að gerendur vilji fara þessa leið og taka ábyrgð á gjörðum sínum, hvort sem þær eru saknæmar eða ekki. Rannsóknir frá bæði Kanada og Bandaríkjunum sýna að sáttamiðlun getur hjálpað þolendum kynferðisbrota að takast á við lífið að nýju um leið og hún opnar leið fyrir gerendur á farsælli endurkomu í samfélagið.

Sáttamiðlun er heimil á Íslandi en lítið notuð nema einna helst í málefnum ungra brotamanna og ekki í kynferðisbrotum eins og áður sagði. Árangurinn hefur verið góður og aðilar mála lýst sig ánægða með lyktir mála. Sérfræðihópar sem metið hafa úrræðið og aðilar ákæruvalds á Íslandi hafa allir mælt með aukinni notkun sáttamiðlunar í sakamálum. Þolendur kalla á breytt vinnubrögð – er ekki tímabært að leggja til þessar breytingar?