Það eru nokkur ár liðin síðan ég átti heima síðast á Íslandi en ennþá eru næstum sömu þáttastjórnendur og voru áður en ég fór að heiman. Enn er verið að hampa sama fólkinu í þáttunum hjá þeim, gera þá frægu frægari. Eina sem er nýtt er þessi auglýsing sem glymur í eyrunum á okkur hlustendum; að RÚV sé allra landsmanna en er það rétt? Mér dettur stundum í hug að RÚV sé í raun í eigu þessara þáttastjórnenda sem hafa ráðið ríkjum þarna í mörg ár og liggur á RÚV jötunni eins og ormur á gulli. Jú jú þættirnir skipta um heiti og fólkið fer jafnvel í búninga, gott og vel en það er samt eins og meirihluti þessa fólks standi bara kjurt, snúi sér í hring og stundum jafnvel innan eigin vinahóps. Yfirleitt kemur sama fólkið í viðtöl ár eftir ár. 

Víkkum út RÚV
Hvernig væri að ráða nýtt fólk sem gæti þá farið að taka vini sína í heimsókn en þá kynnumst við alla vegana nýju fólki, vinum nýs þáttastjórnanda. Má ekki annars skipta um þáttastjórnendur? Það er fullt af hæfileikaríku fólki þarna úti sem getur gert góða hluti á RÚV, gert eitthvað nýtt og meira skapandi. Þú átt ekki að þurfa að vera dóttir eða sonur einhvers, ja eða vinur einhvers, til þess að fá vinnu hjá þessari ríkisstofnun sem er í eigu okkar allra. Okkur hinum langar kannski að fara að heyra í nýju fólki. Við vitum allt nú þegar um fræga fólkið í landinu og nennum ekki endalaust að heyra bara um þau! Hinir eiga líka góða sögu á bakvið sig.

Frægir verða frægari, ríkir verða ríkari
Þetta er fjórða valdið í landinu okkar, fólkið sem stjórnar því hverjir komast í gegn, komast í frægðarljómann. Það sáum við glöggt þegar nýjasti forseti landsins var kjörinn. Þarf þetta að vera svona? Er ekki fleira fólk í landinu okkar sem getur tekið við af þessum gömlu kempum? Já sumt af þessu fólki er eins og forseti alþingis sem endalaust situr inni á þingi en ætti að vera löngu farinn í heimahaga.

Sjálfumgleði fjölmiðlafólks
Ég er að gefa út þriðju bókina mína en það hvarflar ekki að mér að biðja Egil Helgason að taka mig í viðtal því ég þekki hann ekki neitt. Við sem erum nýir rithöfundar þurfum líklega bara að gera eitthvað róttækt til þess að hann taki eftir okkur, því hann stendur bara kjurr eins og hinir RÚV þáttastjórnendurnir, snýr sér í hring og tekur vini sína og vini þeirra í bókakynningu. Telst þetta bara eðlilegt hjá RÚV? 
Ég skrifa bækur fyrir alþýðuna og ég skrifa á góðri íslensku. Bækur mínar hafa glatt hundruðir lesenda en ég þekki ekki manninn sem stjórnar hverjir komast í bókaþáttinn á RÚV og er heldur ekki í elítunni hans. Maðurinn svarar ekki tölvupósti frekar en aðrir þáttastjórnendur hjá sama miðli þegar við hin leitumst eftir að komast í viðtal í útvarp eða sjónvarp allra landsmanna. Það er allavegana reynsla mín.

Týnda bókaþjóðin
Einu sinni var það sagt um okkur Íslendinga að við værum bókaþjóðin mikla og eyjan okkar er oftast kölluð sögueyja af Norðmönnum. Hver er staðan í dag? Bækur seljast illa hér á landi. Íslenskir bókaútgefendur þrábiðja yfirvöld um að afnema virðisaukaskatt á bókum svo fleiri geti keypt sér bók og gefið td. í jólagjöf eða sem tækifærisgjöf. Ennþá eru til bókabúðir á meðan plötubúðir eru nánast horfnar hér á landi. Ég veit að bókin lifir góðu lífi í Noregi þar sem ég átti heima undanfarin ár. Norðmenn hampa bókum í venjulegum fréttatímum, taka höfunda í heimsókn þangað og þannig fá ALLIR höfundar, bæði nýir og gamlir að vekja athygli á sér. Þeir benda á nýja höfunda sérstaklega því þeir vita að það þarf einnig að sinna því fólki svo skrifin haldi áfram. Umtal ríkisfjölmiðils skiptir miklu máli. Bækur fá mikið pláss í fjölmiðlum þar í landi sem hefur auðvitað þau áhrif að fólk er að kaupa bækur. 

Tónlist og bækur
Sjáum hvað hefur gerst með tónlistina í landinu okkar. Hún blómstrar aldrei sem fyrr, sem er auðvitað frábært. Íslenskir fjölmiðlar hafa auðvitað átt þátt í að skapa þessa velgengni íslensks tónlistarfólks. Þeir fá þetta fólk í heimsókn til þess að ræða um tónlistina þeirra og eru ekkert að fela það. Þeir spila lögin þeirra og eru einnig með margar klukkustundir á viku til þess að vekja athygli á nýrri tónlist. Þetta fólk á greiðan aðgang í fjölmiðlana sem er ekkert annað en ókeypis auglýsing, gott og vel. Jafnræðisreglan er samt brotin því bækur og höfundar eiga einnig að fá pláss í fjölmiðlum okkar. Má ekki finna leiðir til þess að vekja mun meiri athygli á bókum en nú er gert, svo við getum haldið áfram að monta okkur af því að vera sögueyjan í norðri? Má ekki líka benda á fólkið sem er að skrifa þessar bækur? Má ekki gefa bókum meiri tíma og mun meiri athygli í fjölmiðlum landsins? Svo er annað. Afhverju mega bókaútgefendur ekki hafa samband við fjölmiðla til þess að kynna alla höfunda og nýjar bækur jafn léttilega og tónlistina? Hvar er metnaðurinn hjá fornri bókaþjóð? Ég held að fólki þætti alveg jafn áhugavert að vita hvað óþekktur höfundur fær sér í morgunmat eða drekkur marga kaffibolla fyrir hádegi á laugardögum.