Með síðustu fréttum af flaggskipi íslenskra sjúkrahúsa, er sorgarsaga af fárveikum manni, sem var sendur heim af bráðamóttöku (BMT) spítalans, án frekari tilmæla eða upplýsinga. Heim kominn, tók manninum að versna - og andast í kjölfarið. Ekkja mannsins kom síðar fram í sjónvarpsviðtali og lýsti þessu hörmulega atviki af yfirvegun og skýrleika. Í tilefni þessa var haft sjónvarpsviðtal við landlækni og hann spurður að því, m. a., hvaða álit hann hefði á þessu atviki og þá sérstaklega því, að þessi augljósu mistök LSH hefðu ekki verið tilkynnt, eins og lög segja til um, og hinu, hvort þarna væru ekki mistök, sem rekja mætti til ástandsins á BMT spítalans. Í stað þess að ræða þessi alvarlegu og augljósu mistök af hreinskilni, kaus landlæknir að kalla atburðinn “frávik,” sem þyrfti að skoða nánar. Seinna í viðtalinu viðurkenndi hann þó krísuástandið á LSH og kvaðst vonast til þess, að nýtt hjúkrunarheimili myndi minnka vandann - um leið og hann viðurkenndi launavanda hjúkrunarfræðinga, án þess þó, að ræða hann frekar.

Skoðum málið nánar.

Langvarandi rekstrarvandi íslensku heilbrigðisþjónustunnar hefur ómað yfir þjóðinni eins og gatslitin grammófónsplata frá Hruni. í niðurskurðarrassíunni, sem fylgdi Hruninu, var hoggið inn að beini kerfisins og áverkinn aldrei bættur að fullu eftir það - þótt sjóðir landsmanna hefðu - smám saman - náð sér að fullu og rúmlega það. Undanfarnar ríkisstjórnir - ásamt núverandi - hafa verið í krónískri afneitun, þegar menn hafa viljað ræða hinn raunsanna vanda kerfisins í alvöru. Ráðandi pólitíkusar hafa viljað skoða kvörtunarefni heilbrigðiskerfisins með blinda auganu og virðast vera algerlega ónæmir fyrir utanaðkomandi ábendingum og gagnrýni. Á meðan versnar kerfið. Ráðamenn hafa bent á væntanlegt nýtt hjúkrunarheimili, sem hluta lausnarinnar, þótt þeir viti, að starfsmannaskorturinn breytist ekkert við komu þess. Í október sl. var 40 legurýmum lokað vegna skorts á hjúkrunarfræðingum! Og svo er áformað að bæta stöðuna með fleiri legurýmum! Þarna sést sorgleg birtingarmynd stjórnunarvanda og ráðaleysis stjórnenda. Eða er rótin að þessu króníska klúðri kannski allt önnnur? Er kannski í gangi skipulögð og undirförul pólitískt dulbúin sveltistefna, þjónandi því dulda langtímamarkmiði, að láta einkaframtaksdrauma ákveðinna einstaklinga og pólitískra afla rætast, með því að fá rústir heilbrigðiskerfisins í sitt mjólkurbrjóstaþrútna fang?

Undanfarin ár höfum við fengið skelfilegar upplýsingar um ásigkomulag sumra hjúkrunarfræðinganna okkar. Vanlíðan margra þeirra hefur orðið ljós bæði á vinnustaðnum og einnig við flóttann í önnur störf. Í vandaðri rannsókn á líðan hjúkrunarfræðinga árið 2002 reyndust 6% þeirra eiga við alvarlega kulnun að etja. Í endurtekinni sömu rannsókn frá síðala árs 2015 reyndust 20% þeirra þjást af alvarlegum einkennum kulnunar! Og svo eru ráðamenn í afneitun! Og fjármálaráðherrann segir nýlega: “Að eitthvað sé að í kerfi sem taki sífellt við stórauknum fjármunum, en lendi viðstöðulaust í rekstrarvanda.” Og þetta segir sá eingtaklingur, sem ber einna mestu ábyrgð á því að fleiri og fleiri hjúkrunarfræðingar þjást af kulnun og flýja starfið.

Hvering væri nú að gyrða sig í brók og bjóða íslenskri heilbrigðisþjónustu strax svipaða árlega fjárfamlegð og frændþjóðir okkar á Norðurlöndum gera og hafa gert undanfarin ár. Tölur (OECD 2019) sýna að við erum langt frá því að standa jafnfætis þeim í fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Á sama tíma og Ísland ver 8,3% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála, ver Noregur 10,2%, Danmörk 10,5% og Svíþjóð 11%!

Samkvæmt þessum tölum er talið, að það vanti um 30 til 50 milljarða árlega inní íslenska heilbrigðiskerfið til að við getum talist jafningjar frændþjóðanna! Hvað er eiginlega að okkur? Er þetta einhver sjálfspíningarárátta. Á okkur að líða best illa? Viljum við kannski öll deyja sem “frávik”?

Nei! Hingað og ekki lengra!

Stöndum á fætur og krefjumst þess réttlætis, að fá að standa jafnfætis frændþjóðum okkar í heilbrigðismálum! Við höfum efni á því! Jafnframt skulum við krefjast þess strax, að

Höfundur er læknir.