Á rlega útskrifast hópur ungmenna með skerta starfsgetu af starfsbrautum framhaldsskóla. Þau koma full tilhlökkunar og vel undirbúin út í lífið en þar mætir þeim blákaldur veruleikinn. Sinnuleysi stjórnvalda.

Fyrir réttu ári áttu sér stað umræður í þingsal um hvað stjórnvöld gætu gert til að standa undir væntingum þessa hóps og samfélagsins um að tryggja úrræði og atvinnutækifæri . Þingmenn, þar á meðal félagsmálaráðherra, voru sammála um tvennt, það þyrfti hvata og aðgerðir frekar en orð.

Stofnaður var verkefnahópur á vegum menntamálaráðuneytisins. Það átti að bregðast hratt við. Fjárlög fyrir árið 2019 voru frágengin en tækifærið var sagt koma að ári.

Verkefnahópurinn skilaði tillögum sínum snemma í vor. Til þeirra tillagna hefur síðan ekkert spurst. Fjárlög fyrir árið 2020 hafa hins vegar verið lögð fram og þar sjást þess engin merki að til standi að setja fjármagn í að bæta stöðu þessa unga fólks. Þar er reyndar frekar bakslag með lækkun á fjárveitingum til Fjölmenntar sem m.a. sér um rekstur símenntunarstöðvar fyrir fatlað fólk.

Landsþing Þroskahjálpar ályktaði nú í lok október sl. um skort á menntunar- og atvinnutækifærum fyrir ungt fatlað fólk sem útskrifast af starfsbrautum framhaldsskóla. Þar kemur fram að í ljósi þess að nefnd á vegum menntamálaráðherra hefði farið yfir stöðu þess hóps og skilgreint fyrsta skrefið í að breyta þessum aðstæðum, vekti það undrun og vonbrigði að í fjárlögum fyrir árið 2020 væri ekki að finna þess merki að auka ætti möguleika þessara ungmenna til að fóta sig.

Stjórnvöld hafa gefið undir fótinn með að aðgerðir væru fyrirhugaðar til að fjölga tækifærum í atvinnu- og menntamálum fyrir fötluð ungmenni og styrkja tengsl skóla við atvinnulífið til að auka atvinnutækifæri fatlaðs fólks.

Þessi hópur á rétt á því að fá upplýsingar um afdrif tillagna verkefnahópsins sem hafa legið fyrir lengi. Þessi hópur þarf að fá að vita hvernig fyrirhugaðri fjármögnun verður háttað, fjármögnun sem er ekki tryggð í fjárlögum næsta árs.

Þessi hópur á heimtingu á staðfestingu frá ráðherrum menntamála og félagsmála á því að þau ætli að láta aðgerðir fylgja orðum.