Norrænar goðsagnir er ein af mínum uppáhalds bókum en ég þori ekki lengur að hafa hana uppi við, því ég vil ekki að fólk haldi að ég sé eitthvað tengdur öfga-hægri öflum,“ sagði aðdáandi Neil Gaiman við hann í tísti.

Öfga-hægrið hefur löngum rennt löngunaraugum til sagna og merkja norrænu goðsagnanna. Við þurfum ekki einu sinni að fara aftur til hinna upprunalegu nasista og áhuga þeirra á norrænum goðum til að upphalda ímyndinni um hinn hreina stofn.

Mjölnir var áberandi í Charlotteville. „Sjáumst í Valhöll,“ skrifaði fjöldamorðinginn í Christchurch. Hugmyndafræði innrásarmanna í bandaríska þingið var augljós, enda skreyttir myndum af Yggdrasil og Mjölni.

Við getum ekki falið okkur á bak við afsakanir um að þetta sé bara einhver erlendur óþjóðalýður sem skilur ekki menningararfinn. Hér á landi hafa sprottið upp hópar undirmálsmanna sem telja sig öðrum æðri vegna húðlitar og uppruna – og tengingar við Óðin.

Við megum vera stolt af menningararfinum okkar en nýtum hann ekki til að lyfta okkur upp yfir aðra. Við getum reynt að útskýra fyrir heiminum að öfga-hægrið hafi engan rétt á okkar táknmyndum. En best væri að sýna frjálslyndið og jafnrétti allra í verki og styðja fjölbreyttar birtingarmyndir goðanna sem rífur niður ímyndina um yfirburði þeirra sem eru hávaxnir, ljóshærðir og hvítir. Eins og Neil Gaiman, sem birtir Óðin sem dökkan yfirlitum og frekar smávaxinn mann. Og son hans svartan í þáttunum um amerísku guðina sem ég horfi á á miðvikudögum.

*Aflýstur er íslenskun á enska hugtakinu „cancelled“.