Grundvallarhugmyndin að baki iðjuþjálfun er skilyrðislaus réttur fólks til að lifa innihaldsríku lífi með því að stunda iðju sem er því mikilvæg. Iðja nær yfir allt sem fólk tekur sér fyrir hendur í lífinu. Það getur verið eitthvað sem manneskju langar til að gera, eitthvað sem hún þarf að gera eða eitthvað sem er ætlast til að hún geri. Sem dæmi um iðju má nefna að rækta vinatengsl, sinna margs konar tómstundum, stunda atvinnu og sjá um sjálfan sig og sína nánustu. Iðja fólks er því mjög fjölbreytt og hefur mismunandi þýðingu fyrir hvern og einn.

Iðjuþjálfar tilheyra heilbrigðisstétt og hafa menntun og þjálfun til að aðstoða fólk við að setja sér markmið um iðju sem viðkomandi vill stunda eða ná betri árangri í. Þeir hvetja fólk til að leita lausna og veita viðeigandi stuðning til að efla fólk við að ná settu marki. Leiðirnar að aukinni þátttöku eru einstaklingsbundnar og fela ýmist í sér að bæta færni eða aðlaga umhverfið, meðal annars með ýmsum hjálpartækjum eða breyttu skipulagi við vinnu, nám eða leik.

Á síðustu tveimur áratugum hefur orðið mikil þróun innan iðjuþjálfunar, bæði á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi. Áður unnu iðjuþjálfar nánast eingöngu á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum. Í dag vinna þeir víðsvegar í samfélaginu og sinna þjónustu við ólíka þjóðfélagshópa. Þannig vinna iðjuþjálfar nú á ýmsum sviðum innan velferðarkerfisins og í margvíslegu umhverfi þar sem fólk stundar sína daglegu iðju. Þeir starfa til dæmis á öllum stigum skólakerfisins, við starfsendurhæfingu, móttöku flóttafólks, í heimaþjónustu aldraðra, í búsetukjörnum fyrir fatlað fólk og við geðheilbrigðisþjónustu. Ennfremur vinna iðjuþjálfar fjölbreytt störf hjá einkafyrirtækjum og koma að alls kyns ráðgjöf og nýsköpun.

Iðjuþjálfunarfræði er þriggja ára nám til BS gráðu. Hér á landi er fagið eingöngu kennt við Háskólann á Akureyri en þar eru notaðar kennsluaðferðir sem gera nemendum kleift að stunda nám við skólann óháð búsetu. Til að öðlast starfsréttindi sem iðjuþjálfi þarf auk grunnnáms í iðjuþjálfunarfræði að ljúka eins árs diplómanámi á meistarastigi í iðjuþjálfun. Stór hluti starfsréttindanámsins er verkleg þjálfun sem fer fram á vettvangi undir handleiðslu starfandi iðjuþjálfa. Nútíma áherslur í iðjuþjálfun endurspeglast skýrt í nýju námsfyrirkomulagi en námið byggir jafnt á félags- og heilbrigðisvísindum. Þannig er sjónum beint að því hvernig líkamsstarfsemi hefur áhrif á iðju fólks en ekki síður hvernig ýmsir samfélagslegir þættir geta ýtt undir eða torveldað þátttöku við iðju og haft áhrif á heilsu og lífsgæði borgara. Mannréttindi og valdefling eru þannig kjarnahugtök í náminu.

Starfsvettvangur iðjuþjálfa er mjög fjölbreyttur og á tímum örra breytinga innan menntakerfis og félags- og heilbrigðisþjónustu eru tækifærin óþrjótandi og mikil eftirspurn eftir starfskröftum þeirra bæði á Íslandi og víða erlendis.

Ef þú hefur áhuga á að starfa sem iðjuþjálfi getur þú kynnt þér málið betur á vef Háskólans á Akureyri: www.unak.is