Nú á dögunum voru kynntar tillögur starfshóps dómsmálaráðherra til aðgerða sem stytta eiga boðunarlista til afplánunar refsinga. Þar er meðal annars fjallað um reynslulausn sem tæki til að stytta lista ásamt öðru sem vikið verður að í síðari greinum.

Afstaða telur að tillögur starfshópsins séu grunnar og ekki sé kannað hvort þær standist stjórnarskrá og mannréttindasáttmála sem Ísland hefur lögfest. Gleymst hafi að sýna fram á að almannahagsmunir séu til staðar sem veiti svigrúm til að takmarka jafnræði manna.

Tilgangur reynslulausnar er sá að draga úr líkum á ítrekun brota og stuðla að farsælli betrun og aðlögun dómþola að samfélaginu. Fangelsismálastofnun hefur lýst, í bréfi til fanga, hversu alvarlega og skemmandi áhrif löng fangavist hafi á fanga og fjölskyldur. Hagsmunir almennings liggja í því en ekki að fangar séu svo lengi í fangelsi að þeir komi "skemmdir" út.

Framkvæmd reynslulausnar.

Tilefnið nú er að fjalla um þá íslensku sérstöðu að gera upp á milli fanga hvað varðar reynslulausn eftir því hvaða tegund afbrota þeir fremja. Lög um fullnustu refsinga mæla fyrir um að þeir sem hljóta dóma fyrir tiltekin alvarlegri afbrot fái reynslulausn að liðnum 2/3 hluta afplánunar en aðrir eftir 1/2 afplánunar. Í tilvikum sem fangar eru 21 ára eða yngri þegar þeir fremja afbrot er veitt reynslulausn að liðnum 1/3 hluta afplánunar án tillits til brotategundar.

Stjórnvöld í dómarasæti.

Afstaða hefur hefur talið það skjóta skökku við að einblína á eðli afbrots við veitingu reynslulausnar án annarra atvika. Álit reynslumikilla lögmanna styðja þessa skoðun Afstöðu og þá um leið að lagaákvæði sem mismuna föngum með þessum hætti stangist á við stjórnarskrá Íslands.

Í réttarfari flestra þjóða er hugmyndin sú að einungis dómstóll getur ákveðið að einstaklingar skuli sæta refsingu með frelsisskerðingu. Þetta kemur fram í Stjórnarskrá Íslands og í Mannréttindasáttmála Evrópu. Menn og konur eru dæmd til fangavistar af dómstólum um lengri eða skemmri tíma. Dómurinn tekur mið af ýmsum ástæðum á borð við alvarleika afbrots, ásetningi sakbornings, skaða sem af hlýst, iðrun og tilraunir til að bæta fyrir brotið, aldurs og aðstæðna að öðru leyti. Dómstóll er sem sagt búinn að meta allar hliðar afbrotsins og fellir dóm í samræmi við það. Lengd refsingar tekur mið af því.

En þá tekur stjórnsýslan við keflinu og skoðar afbrotið upp á nýtt. Löggjöfin um fullnustu refsinga veitir fangelsismálastofnun vald til gera upp á milli fanga eftir eðli afbrota án þess að velta fyrir sér hvenær óhætt sé að veita reynslulausn. Eðli afbrotsins ræður því hversu stórt hlutfall refsingarinnar hver og einn þarf að sitja í fangelsi án tillits til annarra þátta.

Skrítin dæmi.

Reglur um reynslulausn lengja afplánunarhlutfall þeirra sem fremja alvarlegri afbrot en stytta hina. Og í raun getur útkoman verið hálf kjánaleg í sumum tilvikum. Það er vel raunhæft að sá maður með styttri dómi en sá næsti þurfi að sitja lengur í fangelsi án tillits til hegðunar eða annarra atvika.

Sá sem hlýtur 10 mánaða fangelsisdóm fyrir að svíkja milljónir út úr Alzheimer-sjúklingum losnar eftir 5 mánuði. Sá sem fær 9 mánaða dóm fyrir sjoppurán losnar eftir 6 mánuði.

Segjum sem svo að lögreglumaður fái 10 ára dóm fyrir landráð skv. 92. gr. hegningarlaga og peningafals. Hann þyrfti að afplána 5 ár eða jafn lengi og sá sem fengi 7 og 6 mánaða dóm fyrir íkveikju. Sá sem hlýtur 8 ára dóm fyrir bankarán þyrfti að afplána 5 ár og 4 mánuði og sá sem fengi 9 ára fangelsi fyrir fíkniefnasmygl þyrfti að afplána 6 ár.

Til gamans má ímynda sér tvo menn sem fara í bæinn í þeim erindagjörðum að ná sér í pening. Þeir stela fjármunum víða og brjótast inn í fjölmörg hús og bíla. Í dagslok sjá þeir sitt hvora konuna á bekk, önnur er sofandi með veskið sitt á öxlinni en hin er vakandi með veskið sitt á öxlinni. Annar mannanna stelur veskinu af konunni sem sefur og hefur 2 milljónir upp úr krafsinu. Hinn maðurinn hótar vakandi konunni, rífur af henni veskið og hefur varalit upp úr krafsinu. Báðir fá 12 mánaða fangelsi. Sá fyrri afplánar 6 mánuði en hin síðari 8 mánuði þar sem hann er með eitt rán í pokahorninu.

Að lokum má ímynda sér raunhæft dæmi um tvo unga menn sem báðir frömdu manndráp að morgni hins 1. mars 2015 og hljóta fyrir 16 ára fangelsisdóm. Þeir voru í sama bekk í skóla. Annar er fæddur 1. febrúar 1993 en hinn tveimur mánuðum síðar eða 1. apríl 1993. Tveir mánuður eru á milli þeirra í aldri, annar er að verða 22 ára en hinn er nýorðinn 22 ára. Sá fyrri þarf að afplána 5 ár og 4 mánuði vegna þess að hann fær reynslulausn eftir 1/3 hluta afplánunar. Sá síðari þarf að afplána tvöfalda fangavist hins eða 10 ár og 8 mánuði vegna þess að hann fær reynslulausn eftir 2/3 hluta.

Það má spyrja sig hvort það geti verið rétt að svo mikill munur geti verið á refsingum fyrir það eitt að ein móðir fæðir fyrir tímann en önnur eftir tímann.

Afstaða telur að reynslulausn skuli taka jafnt til allra fanga. Félagið telur þó nauðsynlegt að ungir fangar dvelji aðeins skamman tíma í fangelsi og telur að almenn regla geti átt við um þá á grundvelli almannahagsmuna. Eðlilegt væri að leysa málið með refsilöggjöf og þá með því að leggja meiri áherslu ungan aldur til lækkunar refsinga fyrir dómi. Sé hins vegar ætlunin að mismuna föngum eftir brotaflokkun með stjórnvaldsákvörðun er rétt að benda ríkisvaldinu á að útskýra mikilvægi þess og ástæður með þeim hætti sem stenst jafnræðisreglu stjórnarskrár.

Íslenska sérviskan.

Afstaða hefur ritað fangelsismálastofnunum allra Norðurlandaþjóðanna erindi en engin þar kannast við að mismunandi reglur gildi eftir brotategundum. Ekki er fyrirfram gert upp á milli fanga á grundvelli eðlis afbrots heldur er miðað við hvort hættulegt sé að veita reynslulausn og líkur á að hún beri árangur. Almannahagsmunir eru sem sagt hafðir að leiðarljósi og áhersla er lögð á að draga úr ítrekun afbrota.

Í Finnlandi er miðað við að allir fái reynslulausn eftir helming afplánunar við fyrsta brot sé hegðun í fangelsi annars góð. Sú regla var í gildi á Íslandi fyrir 1993. Ungir afbrotamenn geta þó fengið 1/3 í báðum löndum. Í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Færeyjum er meginreglan sú að fangar afpláni 2/3 hluta refsingarinnar en í sumum tilvikum er heimilt að veita reynslulausn eftir skemmri afplánun m.a. ef áhættumat og hegðun í fangelsi mælir með. Dómar eru ekki endurskoðaðir hjá öðrum Norrænum þjónum og brotaflokkur skiptir ekki máli. Hins vegar byggja Norðurlöndin á hegðun og framkomu í fangavist.

Sé farið út fyrir Norðurlönd verður ekki séð að ríki mismuni föngum með þessum hætti en þó hafði Bretland sérstöðu fram til ársins 2010. Það ár komst Mannréttindadómstól Evrópu að því að mismunun fanga varðandi reynslulausn eftir lengd dóms fæli í sér brot á jafnræðisreglu Mannréttindasáttmála Evrópu.

Svo virðist vera sem aðeins á Íslandi skipti eðli afbrota máli við veitingu reynslulausnar. Reyndar eru einstaka undantekningar í gildi í Evrópu varðandi hryðjuverk en í slíkum tilvikum hefur því verið haldið fram að hagsmunir almennings séu fyrir hendi. Þetta á einkum við um ævilanga dóma en meginregla á Norðurlöndum, utan Íslands, er sú að fangar með ævilanga dóma geta losnað að reynslulausn eftir 10-20 ár. Reynslulausn stendur íslenskum föngum ekki til boða hljóti þeir ævilanga dóma.

Brot á stjórnarskrá og mannréttindasáttmála?

Lögmenn sem Afstaða hefur leitað til telja að íslenska lagareglan í 80. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016, sem geri upp á milli fanga vegna eðlis afbrota, kunni að vera andstæð stjórnarskránni og Mannréttindasáttmála Evrópu. Þar er átt við að almenn lög geta ekki skert grundvallarréttindi manna nema ríkir almannahagsmunir krefjist þess. Jafnræðisregla stjórnarskrár Íslands er samsvarandi jafnræðisreglu Mannréttindasáttmála Evrópu og hljóðar þannig:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Um þetta hefur verið fjallað í dómum mannréttindadómstólsins og má segja að dómar bendi til eftirfarandi:

  1. Fangi sem afplánar þungan dóm fellur undir hefur „stöðu“ sem jafnræðisreglan lýsir.
  2. Mismunun fanga varðandi reynslulausn fellur undir jafnræðisreglu.
  3. Tilgangur ákvæða um reynslulausn er ekki að lengja eða stytta refsingu heldur að endurspegla áhættumat á einstaklingi. Handahófskennd sjónarmið geta ekki talist lögmæt og almannahagsmunir og trú á refsikerfinu verður ekki tryggð með því að stjórnvald taki órökstuddar ákvarðanir í hverju tilviki.
  4. Aðildarríki hafa tiltekið svigrúm til að víkja frá mannréttindaákvæðum ef almannahagsmunir krefjast þess.

Líklega verður því að gera meiri kröfur til vinnubragða starfshópa ráðuneytis og ríkisvaldsins þegar kemur að því að setja og rökstyðja lög sem skerða grundvallarréttindi manna.

Tilgangur reynslulausnar og almannahagsmunir

Eftir umfjöllun hér að ofan erum við komin að kjarna málsins sem er að skoða í samhengi tilgang og markmið refsinga, jafnræði borgara, almannahagsmuni og þá um leið trú manna á réttarkerfið. Markmið laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 er tvíþætt:

  1. „[...að fullnusta refsinga fari fram með öruggum og skilvirkum hætti og að sérstök og almenn varnaðaráhrif refsinga séu virk...]“ (1. mgr. 1. gr.)
  2. „[... að draga úr líkum á ítrekun brota og stuðla að farsælli betrun og aðlögun dómþola að samfélaginu.]“ (2. mgr. 1. gr.)

Ákvæði 80. gr. laganna um mismunun fanga varðandi reynslulausn verður að mati Afstöðu að rökstyðja með vísan í markmið laganna auk þeirra grundvallarreglna sem finna má í Stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála.

Þá verður að svara tveimur spurningum sem hvorki hefur verið svarað af starfshópum né af stjórnvöldum við lagasetningu:

  1. Stuðlar mismunun fanga varðandi reynslulausn að því að fullnusta verði örugg og skilvirk og að varnaðaráhrif refsinga séu virk?
  2. Dregur mismunun fanga varðandi reynslulausn úr líkum á ítrekun brota og stuðlar hann að farsælli betrun og aðlögun dómþola að samfélaginu?

Ef hægt er að svara þessum spurningum játandi með góðum rökum og reynslusögum má segja að hagsmunum almennings sé best borgið með að mismuna föngum. Sé annað svarið „nei“ verður líklega að finna aðrar leið. Ólögmætt ójafnræði á einu réttarsviði bendir til þess að það finnist annars staða og því veldur slíkt réttaróöryggi og vantrú að réttarkefið.

Höfundur er formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi.