Á undanförnum árum hefur kulnun verið meira í umræðunni þegar rætt er um málefni vinnumarkaðarins. Í kulnun fest að einstaklingur fer að finna fyrir aukinni þreytu og álagi í vinnu sem á endanum verður til þess að hann er ekki fær um að sinna vinnutengdum skyldum sínum. Margir einstaklingar sem lenda í þessu ástandi falla út af vinnumarkaði og þarfnast jafnan starfsendurhæfingar eða lenda á örorku. Gamalt orðatiltæki segir að nám sé vinna, svo auðveldlega má draga þá ályktun að stúdentar séu í fullri vinnu í námi sínu.

Sú staða að vera í námi getur verið erfið, þar sem námsmenn þurfa gjarnan að vinna mikið á almennum vinnumarkaði með námi til að eiga fyrir útgjöldum sínum. Leigumarkaður er gjarnan dýr auk þess sem það er staðreynd að margt annað sem stúdentar þarfnast til náms kallar á fjárútlát upp á háar fjárhæðir. Það skýtur því skökku við að námsmenn þurfi að vinna og mennta sig á sama tíma til að eiga möguleika á betri vinnu að námi loknu. Það eykur verulega líkurnar á að nemendur lendi í kulnun.

Að lenda í kulnun getur verið slæmt fyrir samfélagið, þar sem margir möguleikar nýtast ekki til að komast í endurhæfingu eða komast aftur á beinu brautina ef þeir lenda í kulnun eða svipuðu ástandi. Námslánakerfið hér á landi er þess eðlis að erfitt getur verið að framfleyta sér. Mörg skilyrði eru þess valdandi að lánin skerðast, sem gerir það að verkum að stúdentar þurfa að vinna meira. Ef stúdentarnir eiga svo engin réttindi til fjárhagsaðstoðar ef eitthvað kemur upp í líf þeirra, gerir það þetta ástand erfiðara.

Með þeim slæma vítahring sem fjárhagslegt óöryggi getur búið til getur það aukið álagið á önnur kerfi samfélagsins, eins og til dæmis heilbrigðis- og velferðarkerfið. Það getur orðið til þess að stúdentar skili sér síður á vinnumarkaðinn með nýja þekkingu. Er þetta það samfélag sem við viljum byggja upp?