Að undanförnu hefur töluvert verið rætt um að framboð lyfja á Íslandi sé takmarkaðara en í nágrannalöndunum, en Íslendingum stendur einungis til boða um einn þriðji af þeim lyfjum sem að jafnaði eru til staðar á hinum Norðurlöndunum. Lyfjafyrirtækin hafa bent á að margir þættir hindra innkomu lyfja til landsins og er ein sú augljósasta smæð markaðarins. Ekki verður hróflað við fólksfjölda hér á landi en stjórnvöld hafa þó önnur ráð til að auka ásýnd markaðarins og með því ýta undir fjölbreyttara úrval lyfja á íslenskum markaði.

Lækkun skráningargjalda lyfja

Lyfjastofnun hefur kynnt leiðir til að auka framboð lyfja á Íslandi. Má þar meðal annars nefna hraðleið „núll daga feril“, þar sem Lyfjastofnun tekur gilt mat umsjónarlands skráningar (RMS lands). Með þessari hraðleið veitir stofnunin markaðsleyfi fyrir lyfið á Íslandi, án íhlutunar, sem viðurkennd hefur verið í öðru landi á Evrópska efnahagssvæðinu.

Hins vegar er mikilvægt að skoða einnig þann kostnað sem fyrirtæki þurfa að leggja út fyrir, til að fá og viðhalda markaðsleyfi. Í dag er hár skráningar- og viðhaldskostnaður fyrirstaða þegar fyrirtæki meta hvort skrá eigi lyf sín á Íslandi, sérstaklega þegar um er að ræða lyf sem seljast í takmörkuðu upplagi. Ef skráningargjald og viðhaldskostnaður væri lagður af eða lækkaður allverulega fyrir veltulítil lyf mætti auka framboð lyfja til muna.

Rafrænir fylgiseðlar

Kröfur Lyfjastofnunar er lúta að fylgiseðlum eru, eðlilega, miklar enda nauðsynlegt að heilbrigðisstarfólk og sjúklingar geti lesið sér til um þau lyf sem notuð eru hverju sinni. Af þessu leiðir að hver lyfjapakkning er sérframleidd fyrir Ísland með tilheyrandi kostnaði. Tilraunaverkefni hófst í byrjun þessa árs um innleiðingu rafrænna fylgiseðla. Með því að taka alfarið upp rafræna fylgseðla á Íslandi verður hægt auðvelda innkomu lyfja sem alla jafna seljast í takmörkuðu upplagi hér á landi.

Verðlagning samheitalyfja gerð frjáls

Í dag er hámarksverð lyfja á Íslandi ákveðið af lyfjagreiðslunefnd og miðar nefndin við að verð á Íslandi sé ekki hærra en lægsta verð eða meðalverð á hinum Norðurlöndunum. Hefur þessi leið, leitt til þess að lyfjaverð á Íslandi hefur verið samkeppnishæft í samanburði við hin Norðurlöndin, enda um að ræða hámarksverð hér á landi. Það liggur þó fyrir að þessar skorður hafa leitt til þess að lyfjafyrirtæki hafa sleppt því að skrá og markaðssetja töluverðan fjölda lyfja. Endurspeglast það í þeirri staðreynd að lyfjaúrval er minna á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin. Með því að gefa lyfjaverðlagningu á heildsölustigi frjálsa, að öllu eða að hluta til, er ljóst að úrval lyfja á Íslandi myndi aukast. Vafalaust yrði verð þeirra lyfja sem ekki eru í sölu á Íslandi í dag hærra enda ekkert lyfjafyrirtæki séð sér hag í að selja lyfin á því verði sem lyfjagreiðslunefnd hefur ákvarðað. Flest samheitalyf sem eru seld í dag búa þegar við töluverða samkeppi og því er líklegt að áhrifin á verðlagningu þeirru yrðu lítil. Þessi aðgerð myndi því auka úrval lyfja og líklega hafa lítil áhrif á verð þeirra lyfja sem þegar eru seld á Íslandi.

Höfundur er lyfjafræðingur.