Jóhanna Hreinsdóttir, kúabóndi og formaður Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði, skrifar grein í Fréttablaðið 9. júlí 2020 sem hún kallar „Já, mjólk er góð“ og rökstyður hvers vegna láta á skattgreiðendur styrkja framleiðslu mjólkur og neytendur sætta sig við innflutningshömlur og tolla á mjólkurafurðum.

Það er mikilvægt hafa það sem sannara reynist þegar fjallað er um ríka hagsmuni. Því miður hallar Jóhanna víða réttu máli. Rök Jóhönnu eru ská- og feitletruð og greining mín strax á eftir.

Mjólk er góð. Mörgum finnst það, en það er smekksatriði.

Mjólk er næringarrík. Fyrir marga já, en ekki alla og ekki mikið magn.

Landbúnaður er verndaður og varinn í öllum ríkjum heims. Hér á Jóhanna væntanlega við þróuð lönd, því þróunarlönd hafa yfirleitt ekki efni á stuðningi. Lönd styrkja sinn landbúnað mismunandi mikið, en engar þjóðir eins og við. Á Íslandi er landbúnaður styrktur þrefalt meira en í Evrópu að meðaltali og um fimmfalt meira en gert er í BNA.

Stuðningur við mjólkurframleiðslu var 45 prósent af framleiðslukostnaði mjólkur í BNA en 33 prósent hér. Stuðningurinn er reyndar alls milli 60-80% hér (sjá neðar) og af því að framleiðslukostnaður mjólkur er um helmingi lægri í BNA en hér, reiknast sami stuðningur á kg helmingi hærri hér.

Stuðningur við mjólkurframleiðslu er 33 prósent á Íslandi [sem er ekki mikið]. Beinn stuðningur til „nautgriparæktar“ á fjárlögum er rúmir 7 milljarðar kr. í ár sem gerir um 35% af framleiðsluvirði mjólkurafurða eða 51% ofan á grunnvirði. Tollvernd mjólkurframleiðslu, sem ekki er til staðar á milli landa í Evrópu, kostar neytendur hér um 5 milljarða króna til viðbótar. Heildarstuðningurinn hér er á bilinu 60-80% eftir því hvernig er reiknað.

90% tollskrárnúmera bera ekki toll hér en 26% í ESB-ríkjunum. Það, hvort tollar eru á einhverjum öðrum vörum, kemur þessu máli ekki við. Innan Evrópu er opinn markaður með matvörur. Tollar á matvöru sem hér viðgangast eru allt að því mannréttindabrot gagnvart fátæku fólk, lífeyrisþegum, láglaunafólki og barnafjölskyldum.

Meðaltollur er 6,3% í ESB en 4,6% hér. Meðaltalið kann að vera rétt en þetta á ekki við um matvöru. Matvara, sem er viðkvæmasta varan, er tollfrjáls innan Evrópu en ofurtolluð hér. Í Evrópu eru norðlæg og suðlæg ríki og allt þar á milli. Laun og verðlag er líka mismunandi. Samt er sameiginlegur matvælamarkaður. Það jafnar kjör og aðstöðu Evrópubúa til mikilla muna. Við ættum að fara sömu leið til að bæta lífskjör fátæks fólks.

Hægt er að flytja inn án tolla 610 tonn af ostum. Já, en tollkvótar eru enn boðnir út, sem er ígildi tolla. Neytendur njóta því ekki lægra verðs á ostum og slíku sem í boði er í Evrópu.

Ef Íslendingar ætluðu að flytja út án tolla á móti er sú heimild aðeins 50 tonn. Þetta hljómar mjög undarlega. Tollkvótar fyrir skyr til Evrópu eru 3 til 4.000 tonn á ári, um 3.050 tonn af kindakjöti, auk alls fisksins sem líka er matvæli.

Rúmlega þúsund fjölskyldur hafa afkomu beint af mjólkuriðnaðinum. Það eru um 600 mjólkurbændur í landinu. Nokkur þúsund vinna afleidd störf. Þó opnað væri á tollfrjálsan innflutning myndi mjólkurframleiðsla halda áfram hér, því mjólkin er dagvara. Við flytjum líka talsvert út til dæmis af skyri, samanber ofangreint. Það er eðlilegt að hafa opið í báðar áttir.

Það er stórt hagsmunamál fyrir þjóðir að hafa sterka innlenda [matvæla]framleiðslu. Vissulega. Við framleiðum líka gríðarlega mikið af matvælum og flytjum megnið af því út, það er sjávarafurðir. Aðalmálið varðandi matvælaöryggi er að eiga birgðir af þurrmat og slíku ef samgöngur teppast.

Velferð, laun og aðbúnaður á Íslandi er ekki sambærilegur ódýrari framleiðslusvæðum í heiminum. Það er rétt en við styðjum mjólkur- og kindakjötsframleiðslu svo mikið að ef við gerðum það sama fyrir aðrar atvinnugreinar myndum við varla vinna fyrir aðföngum og ekkert væri til skiptanna til þess einu sinni að kaupa í matinn.

Að lokum: Hagur almennings miðað við sérhagsmuni bænda

Það er hagkvæmast fyrir þjóðir að gera það sem þær eru góðar í, selja það sem umfram er eigin þarfir og kaupa af öðrum þjóðum það sem þær eru góðar í.

Við Íslendingar eigum fjölda háskólamenntaðra búfræðinga. Við ættum að nýta þekkinguna og umframgetu á sviði matvælaframleiðslu til að hjálpa fólki í þróunarlöndum til að auka sína framleiðslu og minnka þannig matvælaskort þar sem hann er mestur og kaupa jafnvel af þeim hluta framleiðslunnar, eins og mörg lönd Evrópu gera. Það myndi koma öllum vel.

Við eigum að fella niður tolla og innflutningshömlur af matvælum eins og aðrar þjóðir Evrópu. Íslenskir bændur myndu fá aðstoð við að aðlaga sig nýjum aðstæðum. Þetta myndi efla landið því fleiri myndu leggja eitthvað til og þetta myndi draga úr sárri fátækt.