„Er ekki komið nóg?“ spyr fólk þegar hugrakkar konur stíga fram og segja frá ofbeldi sem þær hafa verið beittar. „Er ekki komið nóg af nornaveiðum og aftökum án dóms og laga og eru ekki menn saklausir uns sekt þeirra er sönnuð á öllum dómsstigum?“

Á hinum vængnum eru þolendur, baráttufólk og fólk sem vinnur með þolendum eiginlega hætt að spyrja. Við ættum auðvitað að gera meira af því.

Er ekki nóg komið af varnarleysi barna sem neydd eru í umgengni við feður sem þau eru svo dauðhrædd við að þau pissa í rúmið næturnar á undan, þau sem eru alveg hætt að pissa undir? Í rúmið í Kvennaathvarfinu, vel að merkja, þar sem þau dvelja með mæðrum sínum á flótta undan ofbeldinu heima.

Er ekki nóg komið af gerendameðvirkni þegar konur sem nafngreina mennina sem beittu þær ofbeldi eru smánaðar og beittar síendurteknu stafrænu ofbeldi, hótunum og formælingum í refsingarskyni fyrir hugrekkið? Og er ekki nóg komið af rökleysu þegar ótal ástæður eru taldar upp fyrir því að þær segi manninn hafa beitt sig ofbeldi og allar taldar trúverðugri en sú að hann hafi í rauninni beitt hana ofbeldi. Þrátt fyrir að fram komi í Áfallasögu kvenna að áfallasögur kvenna eru ekkert sérstaklega líklegar til að vera ósannar.

Er ekki nóg komið af aulagangi réttargæslukerfisins þegar 87% kynferðisofbeldismála sem konur tilkynna til lögreglu enda án sakfellingar? Og þegar nálgunarbann verndar næstum aldrei neina af konunum sem leita í Kvennaathvarfið en meirihluti þeirra hafi óttast um líf sitt í höndum ofbeldismannsins?

Er ekki nóg komið af óumbeðnum typpamyndum? „Ég er orðin fokking drullu þreytt á því að fá sendar typpamyndir, ekki bara ég heldur líka stelpur í kring um mig“ segir Ragga Rix sigurvegari Rímnaflæðis í viðtali við DV. Hún er þrettán ára.

Er ekki nóg komið af byrlunum? Eftirfarandi eru fyrirsagnir úr íslenskum fréttamiðlum undanfarinna tveggja mánaða: Byrlanir geta gerst á öllum stöðum (reynar gerast byrlanir ekki bara bara si sona en látum það liggja á milli hluta). Byrlanir með sprautum geta valdið dauða. Grunur um þrjár byrlanir á Akureyri í nótt. Sjö byrlanir til rannsóknar í höfuðborginni. Birgitta segir byrlanafaraldur geisa í miðbæ Reykjavíkur. Hvíslað um þekktan byrlara. Í hjartastoppi eftir byrlun.

Er ekki nóg komið af getuleysi samfélagsins til að vernda fólk þegar konur og börn þurfa að dvelja innanhúss í athvarfi svo mánuðum skiptir af því að þeim er lífshætta búin ef þau ætla að gera minnstu tilraun til að lifa eðlilegu lífi, þegar átján klukkutíma gamalt barn flytur í neyðarathvarf vegna þess að því og móður þess er ekki óhætt heima, þegar mæður þurfa að leyfa börnum í pissa í flösku á nóttunni af því að þau þora ekki fram á baðherbergi, þegar konur missa vinnuna vegna þess vinnuveitandinn óttast ofbeldismanninn sem lætur hana ekki heldur í friði þar og þegar köttur er snúinn úr hálsliðnum einungis til þess að valda móður barnungs kattareiganda sársauka (skítt með köttinn og barnið sem átti það, hér helgar tilgangurinn meðalið)

Er ekki bara fjandakornið komið nóg?

Höfundur er framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf.