Slagorð Framsóknarmanna í kosningabaráttunni hitti á taug hjá þjóðinni. Þegar öllu var á botninn hvolft mat meirihluti kjósenda stöðuna þannig að það væri bara best að gera ekki of miklar breytingar. Að sama skapi töpuðu þeir sem reiddu hátt til höggs í sínum málflutningi og höfðu uppi stór orð um stöðuna í þjóðfélaginu. Flokkarnir sem lofuðu hóflega og buðust fyrst og fremst til að vera áfram til staðar við stjórn landsins uppskáru hins vegar meira upp úr kjörkössunum, fengu svipað fylgi og síðast eða jafnvel bættu við sig.

Tíðarandinn

Þetta er áhugavert í ljósi tíðarandans með sínum stöðuga hávaða, daglegu hneykslismálum og þéttskipuðum bekk af fólki sem er tilbúið að segja okkur til syndanna. Við lifum á tímum fjölda flokka þannig að það eru ekki lengur tvær raddir í hverju máli, heldur fimm eða sex, allt eftir því hvort um er að ræða íhaldssömu, reiðu, sjálfstæðu, róttæku eða markaðssinnuðu hlið málsins. Á endanum áttu samt samvinna og málamiðlanir helst upp á pallborðið hjá kjósendum. Inni við beinið erum við jú óttaleg samsuða, viljum í senn vera okkar eigin gæfusmiðir og hafa sterkt öryggisnet í samfélaginu. Hugmyndafræðilegar deilur eiga ekki vel við fámenna og nátengda þjóð sem skutlar börnunum í skólann á morgnana, situr saman í stjórn húsfélagsins, foreldraráðinu, skokkhópnum, skipuleggur fjáröflun fyrir blakdeildina og fer á trúnó um þetta allt saman á næsta þorrablóti.

Virkni umfram væmni

Kjörtímabilið sem er að klárast var tæp fjögur ár en manni finnst eins og það hafi staðið yfir í allavega tíu ár. Samstarf ríkisstjórnarflokkanna var óvenjulegt og fór þvert yfir rófið til að tryggja stöðugleika. Minnti á fólk á miðjum aldri sem byrjar að búa saman, jafnvel með nokkur sambönd að baki sem hafa runnið út í sandinn. Þetta var ekki eldheitt ástarsamband með fiðrildum í maga og kertaljósum, heldur praktísk sambúð; fyrst var gerður kaupmáli og svo farið í sleik, heimilið var þrifið, reikningar greiddir á gjalddaga og farið snemma að sofa. Hvort í sínu herberginu.

Hvað sem okkur fannst um þessa ríkisstjórn og hvað sem öllum hrakspám leið reyndist hún á endanum vera það sem meirihlutinn vildi. Svolítið eins og dómharður unglingur sem finnst foreldrar sínir alveg glataðir þar til það rennur allt í einu upp fyrir honum að lífið er ekki svarthvítt og svörin ekki augljós.

Borgarnes, we have a problem

Heilt yfir fóru kosningarnar vel og eðlilega fram, það var hefðbundið íslenskt óveður og smá sambands­leysi í iPadinum hjá Boga Ágústssyni á kosningavaktinni, en að öðru leyti var þetta til fyrirmyndar. Það er kannski vegna þess hvað við erum góðu vön að fréttirnar úr Norðvesturkjördæmi hafa vakið athygli, talningin í Borgarnesi virðist ekki hafa verið nákvæm og reglum ekki fylgt til hins ítrasta. Það var munur á milli talna sem gerði það meðal annars að verkum að langþráður meirihluti kvenna á Alþingi entist bara í nokkrar klukkustundir.

Að því sögðu þá finnst mér blasa við að þessi mistök höfðu ekki áhrif á sjálf úrslitin. Allir gátu kosið, öll atkvæði skiluðu sér og allt var talið. Þess vegna er ekki tilefni til að endurtaka kosningar í kjördæminu eða jafnvel landinu öllu, ekki frekar en ef Píratar og Samfylking hefðu unnið stórsigur og svo kæmu einhver smávægileg mistök í talningu í ljós.

Að næra álhattinn

Þó það geti verið gaman að næra álhattinn í sjálfum sér og sjá fyrir sér dularfullan hótelgest í Borgarnesi, mögulega fulltrúa feðraveldisins sem gat ekki hugsað sér yfirvofandi meirihluta kvenna á þingi, lauma sér í skjóli nætur inn í talningarsalinn, nýta sér afburðaþekkingu á kosningakerfinu og gangverki jöfnunarsæta til að fikta í atkvæðabunkum, krota á auða seðla svo þeir yrðu ógildir og hverfa svo út í nóttina, þá er raunveruleikinn ekki jafnkrassandi.

Flest furðuðum við okkur á upphlaupinu sem varð í kjölfar bandarísku forsetakosninganna í fyrra og kröfum Trumps um að ógilda kosningarnar. Þeim málatilbúnaði var á endanum öllum vísað frá dómstólum, ekki vegna þess að það fundust engin dæmi um eitthvað sem úrskeiðis fór í kosningunum, þvert á móti var talsvert um slíkt. Það tilheyrir í kosningum að eitthvað getur komið upp á. Stóra spurningin er hvort það hafi áhrif á niðurstöðuna og svo var ekki þar og ekki hjá okkur heldur. Kjósendur eiga líka ákveðinn rétt á að niðurstaðan sem þeir kusu standi og sé ekki felld úr gildi vegna mistaka sem engin áhrif höfðu.

Four more years

Allt bendir til þess að hið praktíska samband á ríkisstjórnarheimilinu haldi áfram. Sem fyrr verða þetta engar flugeldasýningar, ljóð eða ástarjátningar á Facebook. Bara hæfilega hversdagslegt og óspennandi, eins og meirihlutinn vill hafa það.