Eitt það hlutverk sem hefur veitt mér mesta gleði og heiður á ævinni, að öðrum ólöstuðum, er það að vera afi. Það er einstaklega merkileg tilfinning að halda á barni barnsins síns í höndunum. Maður fer upp um deild í hamingju.Það gengur oft mikið á í stjórnmálunum og ekki hefur það verið neitt sérstaklega rólegt síðustu mánuðina meðan heimsfaraldurinn hefur geisað.

Þegar erfiðar aðstæður hafa skapast í samfélaginu er það tvennt sem ég hugsa til svo ég fái réttan kúrsinn. Það er annars vegar stjórnmálaforinginn sem hugsar til grundvallarstefnuskrár Framsóknar, flokksins sem ég hef leitt síðustu ár, og hins vegar er það afinn í Syðra-Langholti sem hugsar til barnabarnanna.

Vaxtarstyrkur svo börnin blómstri

Okkur í Framsókn hefur lánast það í okkar jákvæðu og uppbyggilegu kosningabaráttu að setja málefni barna á dagskrá. Það er í eðlilegu framhaldi af tímamótavinnu Ásmundar Einars, barnamálaráðherra, og Lilju Daggar, mennta- og menningarmálaráðherra, á þessu kjörtímabili.

Það mál sem ég hef fengið gríðarlega góð viðbrögð við hvar sem ég hef komið á undanförnum vikum er vaxtarstyrkurinn. Í þessum 60 þúsund króna vaxtarstyrk sem við viljum að standi öllum börnum landsins til boða frá sex ára aldri er í raun táknrænn fyrir hugmyndafræði Framsóknar um að öll börn eigi að fá sömu tækifæri.

Við þekkjum það, bæði í hlutverkum okkar sem foreldrar og sem afar og ömmur, að það er engu líkt að sjá börnin finna sig í íþróttum, listum eða öðrum tómstundum, og blómstra. Það styrkir börnin andlega og líkamlega og býr þau betur undir allt það, gott og síðra, sem lífið vill henda í okkur á lífsleiðinni.

Hagur ungs fólks

Þær aðgerðir og umbætur sem Framsókn hefur staðið fyrir á kjörtímabilinu snúast ekki hvað síst um hag ungs fólks.

Þau mál sem ég vil sérstaklega nefna eru lenging fæðingarorlofsins í 12 mánuði, breytingar á námslánakerfinu þar sem styrkur er veittur vegna barna en ekki aukið á lánsupphæð og 30% niðurfelling á höfuðstól námslána og hlutdeildarlán fyrir fyrstu kaupendur og tekjulága sem gerir ungu fólki kleift að eignast eigið þak yfir höfuðið.

Allt er þetta hugsað til að styðja við fólk sem margt hvert upplifir skemmtilegustu tíma ævinnar um og eftir útskrift úr skóla og um leið fjárhagslega krefjandi tíma.Við í Framsókn munum áfram beita okkur fyrir bættum aðstæðum barna alls staðar á landinu. Það er skylda okkar sem samfélags að enginn sé skilinn eftir.