Fólk spyr mig af hverju ég vilji í pólitík. Þetta er góð spurning og ég hef velt fyrir mér einhverju skynsamlegu leiðinlegu, hefðbundnu, svari. En á endanum verð ég að vera hreinskilinn. Ég gef kost á mér af því ég er bálreiður.

Hvernig stendur á því að fámennt, forríkt, samfélag hér útí ballarhafi geti ekki verið fyrirmynd annarra og verið kennslubókardæmi um jöfnuð og jafnrétti?

Af hverju þessi misskipting auðs? Af hverju klíkuskapur? Af hverju spilling og af hverju kjósum við hana yfir okkur trekk í trekk? Af hverju er níðst á hinum minni máttar? Öryrkjum, eldri borgurum, þeim sem eiga við andleg vandamál að glíma og fíklum? Af hverju er Ísland ekki fyrirmyndarsamfélagið sem aðrar þjóðir líta öfundaraugum til? Af hverju má það vera að þannig sé málum háttað í samfélagi allsnægtanna? Nóg er til handa öllum.

Er öllum sama um að örfáar fjölskyldur sleppi við að borga sanngjarna rentu fyrir nýtingu á sameiginlegri auðlind í eigu þjóðarinnar. Í dag borga sægreifarnir rentu sem ekki dugar einu sinni til að þjónusta sjávarútveginn einsog landhelgisgæslu. Er það í lagi? Og er í lagi að örfáar fjölskyldur geti bara hent milljörðum af illa fengnu fé í börnin sín?

Ef fólki finnst þetta ekki í lagi þá hvernig væri að gefa nýju framboði tækifæri í stað þess að kjósa alltaf sömu flokkana yfir sig sem bera ábyrgð á ástandinu. Og lofa samt öllu fögru á fjögurra ára fresti. Allt heilbrigt fólk veit að þetta er þúsund ára lygi.

Ég og minn flokkur Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn biðlar til ykkar um tækifæri til að sýna þjóðinni að til er önnur leið.Ég lofa bara einu. Að vera sannur og samkvæmur sjálfum mér og hrista upp í gömlu spilltu leiðinda kerfi. Og ég lofa fjöri. Því einsog afi sagði eitt sinn: það er hægt að fyrirgefa pólitíkusum margt. En ekki það að vera leiðinlegir.