„Enginn maður er eyland,“ orti skáldið John Donne í desember árið 1623. Donne var prófastur við St. Paul’s dómkirkjuna í London. Þegar hann veiktist alvarlega af dularfullum sjúkdómi var hann settur í einangrun í prófastsbústaðnum vegna smithættu. Donne líkaði einsemdin illa. „Einvera er pynting sem bíður okkar ekki einu sinni í Helvíti,“ sagði Donne, sem orti hina ódauðlegu ljóðlínu þegar hann slapp loks úr prísund sinni.

Einvera hefur á sér illt orð. Rannsókn sem gerð var við Háskólann í Virginíu í Bandaríkjunum sýnir að meirihluti fólks kýs heldur að fá raflost en að eyða tíma eitt með hugsunum sínum. Sameinuðu þjóðirnar skilgreina einangrunarvist sem varir lengur en í fimmtán daga, sem pyntingu. Í fréttafyrirsögnum um þessar mundir er ítrekað varað við því að í veröldinni geisi „faraldur“ einmanaleika, en tilfinningin sé „jafnskaðleg heilsu og að reykja fimmtán sígarettur á dag“.

Samtíminn lítur á einsemd sem meinsemd. En er málið svo einfalt?

Helvíti er annað fólk

Í síðasta mánuði lá samfélagsmiðillinn Facebook niðri í sjö klukkustundir ásamt samskiptaforritum fyrirtækisins, Messenger og WhatsApp. Sem dyggur snjallsímanotandi voru fyrstu viðbrögð mín að fara á taugum. Ég náði ekki í neinn. Enginn náði í mig. Ég var sambandslaus, umkomulaus, umvafin þrúgandi þögn.

En felmtrið fjaraði fljótt út. Ró færðist yfir. Andrúmsloftið varð allt í einu eins og í gamla daga þegar rafmagnið fór af. Það var ekkert annað að gera en að vera.

Það er viðtekin skoðun að við séum félagsverur. Vísindin boða að yfirburðir mannskepnunnar á jörðinni stafi af hæfni hennar til að vinna saman í stórum hópum. Þannig sé samvera hið náttúrulega ástand og samstarf hin æðsta dyggð. Það er ekki aðeins gott að eiga vini heldur flott. Vinátta er ekki eingöngu mæld í gæðum heldur einnig magni; fjölda fagnaðarfunda í dagbókinni, fjölda vina og velgjörðarsmella á Facebook, flóði ljósmynda á Instagram af þér og vinum þínum að drekka kokteil eða klífa fjall.

Þegar kórónaveirufaraldurinn skall á var heilu samfélögunum skellt í lás í sóttvarnaskyni og einstaklingar skyldaðir í einangrun. Margir vöruðu við skaðanum sem einveran kynni að valda. Niðurstöður nýrrar rannsóknar sem gerð var í Bretlandi á afleiðingum aðgerðanna komu hins vegar öllum í opna skjöldu. Samkvæmt þeim fékk meirihluti fólks ánægju út úr einverunni sem hlaust af sóttvarnaaðgerðum. Þátttakendur lýstu aukinni vellíðan eftir að hafa varið tíma sínum einir með sjálfum sér, frelsistilfinningu og gleði yfir að geta lesið og lært eitthvað nýtt.

„Helvíti er annað fólk,“ er haft eftir persónu í leikriti franska heimspekingsins Jean-Paul Sartre. Þótt það sé full djúpt í árinni tekið er ljóst að einsleitt viðhorf samtímans í garð samvista við aðra, er ekki á rökum reist.

Enska ljóðskáldið William Wordsworth var á öndverðum meiði við kollega sinn Donne. „Ég reikaði aleinn eins og ský,“ orti Wordsworth í óði til einverunnar sem hann kallaði „alsælu“. Listmálarinn Pablo Picasso sagði „enga alvöru iðju vera mögulega“ án einveru. „Skriftir, upp á sitt besta, eru einmana tilvera,“ sagði rithöfundurinn Ernest Hemingway.

Enginn vill vera einmana; öllum er félagsskapur hollur. Upphafning samtímans á samskiptum byrgir okkur hins vegar sýn. Þegar klingjandi áminningar um vináttu þögnuðu við skyndilegt „straumleysi“ hjá Facebook, blasti við hið augljósa: Það er ekki lengur einvera í einsemdinni.

Rétt eins og umgengni við aðra er okkur mikilvæg er einvera það líka. Við bíðum öll eftir að Covid-sóttvörnum linni. En ef vel er að gáð má kannski koma auga á tækifæri í takmörkununum.