Þjáður af félagsfælni og kvíða raulaði Roger Waters um þrá eftir mannlegum tengslum og að hafa dirfskuna til að kíkja yfir vegginn.

Eins og flest ungmenni velti ég því fyrir mér á unglingsárunum hvort heimurinn væri bara blekking. Þetta kemur virkilega sterkt fram hjá þeim áhorfendum Matrix sem náðu ekki lengra en í grynnstu merkingu. Svo þroskumst við og lærum með samskiptum hversu sjálfhverf þessi hugsun er – að allir séu tálsýn hugans nema við sjálf. Sammannleg tenging næst ekki ef þau hin eru ekki til.

Þetta árið hefur kennt mér að ég þarf ekki að fara út úr húsi. Ég get setið, í fínni skyrtu og joggingbuxum, með tölvuna í fanginu og unnið. Vinnufélagar, fjölskylda og vinir eru bara til á skjánum. Þar panta ég mat fyrir mig og kettina og tek við æfingunum sem líkamsræktarstöðin sendir mér samviskusamlega. Stundum íhuga ég jafnvel hvort ég eigi að standa upp og fylgja þessum hollustufyrirmælum. Eða hvort ég eigi bara hægt og rólega að breytast í geimferðalangana í Wall-e. Lífið fer fram í gegnum skjá og allt virðist örlítið óraunverulegra en áður.

Það tekur 21 dag að skapa nýja venju segir sjálfshjálparmýtan. Með nýrri venju kemur nýr raunveruleiki. Að geta mjútað þegar við nennum ekki lengur að hlusta. Að þægilegu heimabuxurnar breytast í heilsdagsbuxur. Það þarf samt meira en 21 dag til að breyta kjarnanum sem segir okkur að sammannlega tengingin þarfnast innan við 2 metra. Þegar við líkamlega rekumst á annað fólk, þá vitum við fyrir víst að það er einhver þarna úti.