Það voru ákveðin tímamót í mínu lífi þegar ég eignaðist fyrstu Levi's gallabuxurnar mínar í kringum 15 ára aldur. Þetta var fyrsta varan sem ég eignaðist sem ég vissi hvað hét. Hún hafði sumsé þann eiginleika að merkimiðinn hafði merkingu.

Þetta var líka skrýtin tilfinning því ég hafði alltaf haft algjöran ímugust á hvers konar snobbi. En þó var ég farinn að átta mig á því að þessi munaðarvarningur hafði eitthvað lúmskt og einkennilegt aðdráttarafl. Þegar ég gerði grín að „Levi's snobburum“ þá fann ég að mig var farið að langa til þess að ganga í þeirra hóp. Og þegar ég loksins steig þetta skref þá leið mér örlítið eins og ég hefði svikið hugsjón.

Ég reyndi að réttlæta þessi sinnaskipti mín fram og til baka með ýmsum hætti. Buxurnar voru vandaðar og virtust falla nokkuð vel að mér. Það var jafnvel ekki óhugsandi að sniðið hefði eggjandi áhrif á stelpurnar, en það veitti svo sannarlega ekki af því að beita öllum tiltækum ráðum í þeim efnum. Svo var það nú orðið þannig að það var undantekning fremur en regla að halda sig við „ómerkilegan fatnað“. Það voru nánast allir aðrir byrjaðir að ganga í Levi's. En á hinn bóginn vissi ég innst inni að ég var að ljúga að sjálfum mér. Buxurnar myndu auðvitað engu breyta um sjálfan mig og með því að byrja að velta fyrir mér hvernig saumarnir á rassvösum gallabuxna sneru þá var ég auðvitað byrjaður að meta fólk út frá allt öðrum gildum en mér höfðu verið kennd.

En smám saman vandist þetta. Eftir því sem tíminn leið hætti hugmyndin um að kaupa merkjavöru að vera framandi og fór að verða regla frekar en undantekning.

Heimurinn breytist

Mig grunar að það sé alls engin heimsósómabölmóður að halda því fram að veruleg breyting á gildismati hafi orðið á undanförnum áratugum á Íslandi og Vesturlöndum öllum. Að sumu leyti er breytingin frábær; við erum örugglega miklum mun opnari fyrir því sem er nýtt og öðruvísi, skiljum betur að fólk getur verið ólíkt og leggjum okkur fram um að koma í veg fyrir einelti, áreitni og ofbeldi sem áður fyrr fékk víða að krauma afskiptalaust í samfélaginu. En að sumu leyti hefur riðlunin á gildismati leitt okkur á varhugaverðar brautir.

Þetta er auðvitað ekki séríslenskt. Dýrkun á yfirborðsfegurð og auðsöfnun er áreiðanlega lengst gengin í landinu sem kaus yfir sig táknmynd smekklausrar ofneyslu í þeirri trú að þeir sem eru ríkir hljóti líka að vera gáfaðir. Sú sturlaða staðreynd að maður á borð við Donald Trump hafi verið frambjóðandi og náð kjöri sem forseti í bandarísku samfélagi er ekki bara vísbending um að einhvers konar siðrof geti átti sér stað, heldur líklega staðfesting á því að það hafi þegar orðið. Þar í landi eru peningar mælikvarðinn á alla mannkosti, og það nánast álitin skylda að gera sér pening úr öllu því sem hægt er að gera sér pening úr.

Þetta hugarfar gegnsýrir Bandaríkin. Fyrir okkur sem fylgjumst vel með bandarískum íþróttum er til dæmis hvimleitt að hátt hlutfall umfjöllunar um íþróttir snýst um laun leikmanna og möguleika þeirra til þess að ná sem bestum samningum. Stjórnmálamennirnir þar virðast nánast allir ofurseldir þeirri hugsun að það sé skylda þeirra að verða ekki bara valdamiklir í störfum sínum heldur líka vellauðugir, eins og sést á því að nokkrir amerískir þingmenn hafa orðið uppvísir að því að nýta sér trúnaðarupplýsingar um veirufaraldurinn til þess að tímasetja viðskipti með hlutabréf. Manni verður nánast óglatt yfir græðginni og firringunni. Siðleysið og sýndarmennskan er algjör.

Vöndum okkur

Svo við snúum aftur að gallabuxunum þá er það að sjálfsögðu ekki svo að merking á vörum sé í eðli sínu slæm. Og það er mjög gagnlegur eiginleiki markaðarins að gerður sé greinarmunur á vörum eftir gæðum þeirra. Það er hins vegar mikill munur á því hvort maður laðast að tilteknu merki vegna þess að það hefur í raun eiginleika sem skipta máli (fegurð, ending, þjónusta, gæði) eða einfaldlega til þess að láta merkið sjálft gefa merki um að maður sjálfur sé merkilegur. Þá er hætt við að maður byrji smám saman að vera merkilegur með sig. Leiðin í skeytingarleysið og eiginhagsmunasemina styttist þegar manngreinarálitið byggist á flottræfilshætti og snobbi. Þá er hætt við að samlíðan og samstaða með öðrum manneskjum fari smátt og smátt forgörðum.

Um þessar mundir, í óvissunni og niðursveiflunni vegna COVID-19, eru margar jákvæðar hliðar að koma í ljós sem hugsanlega mynda mótvægi við slíka brenglun á siðferðismati. Allir Íslendingar hljóta að fyllast auknu þakklæti í garð heilbrigðisstarfsfólks, kennara, afgreiðslufólks í verslunum, sjómanna, iðnaðarfólks, listafólks, góðra blaðamanna, vandaðra stjórnmálamanna og yfirvegaðra yfirvalda. Þótt misjafn sauður sé í mörgu fé þá kemur bersýnilega í ljós í svona aðstæðum, að þegar öllu er á botninn hvolft þá þarf samfélagið á ótrúlega fjölbreyttum hópi fólks að halda og við verðum að geta treyst á skyldurækni, metnað og fórnfýsi alls konar fólks.

Leiðtogar borða síðastir

Eins og aðrir í samfélaginu horfast atvinnurekendur í augu við niðurskurð og óvissa tíma. Þeim er vitaskuld vorkunn því erfiðar ákvarðanir blasa við þeim. Stjórnvöld eru að leggja mikið á sig til þess að hjálpa fólki að halda vinnunni í gegnum tímabundin áföll og ýmsar leiðir hafa verið kynntar til þess að beita samtryggingu ríkisvaldsins til stuðnings við fyrirtækin í landinu. Fyrir þetta hljóta forsvarsmenn fyrirtækja að vera þakklátir.

Mér finnst líka blasa við að atvinnurekendur og stjórnendur fyrirtækja sem þiggja slíka aðstoð hljóti að taka forstjóra Icelandair sér til fyrirmyndar. Þeir hafa augljóslega skyldu til þess að ganga fram með góðu fordæmi með því að skera verulega niður í sínum eigin launum og hlunnindum áður en þeir skerða kjör óbreyttra starfsmanna eða leita á náðir ríkissjóðs.

Enginn raunverulegur leiðtogi hugsar fyrst um sína eigin hagsmuni þegar hætta eða óvissa steðjar að. Ef við erum öll saman í þessu þá þurfa sérstaklega þeir sem hafa það best, og njóta bæði virðingar og efnahagslegra forréttinda, að vera tilbúnir að sýna fórnfýsi og samstöðu.

Lítum upp til þeirra

Nú gæti sú þróun orðið í samfélaginu að það þyki ekki lengur eins flott að vera „flottur á því“. Kannski er tækifæri í öllu þessu áfalli til þess að hefja til virðingar merkilegri gildi heldur en merkimiða á töskum, klæðnaði og bílum.

Öllum er nefnilega að sjálfsögðu alveg sama hvort kennararnir okkar, fólkið í almannavörnum, hjúkrunarfræðingar, læknar og löggur eiga flotta bíla eða hvort það á dýr húsgögn. Svona tímar minna okkur á að líta upp til þeirra sem standa sig vel og eru góðar manneskjur, fólks sem lætur stjórnast af vandvirkni og metnaði, en ekki ásælni og snobbi. Það væri nefnilega lítil huggun í allri merkjavörunni og fallegu veraldlegu mununum ef við gætum ekki treyst á hvert annað til þess að sinna hvert sínu hlutverki af ræktarsemi, alúð og metnaði.