Nú þegar blikur eru á lofti í rekstrarumhverfi stóriðju á Íslandi og horfur í ferðaþjónustu hafa versnað er íslenska þjóðarbúið í kunnuglegri stöðu. Eins og oft áður mun það nú falla í skaut sjávarútvegsins að halda þjóðarskútunni á floti og viðskiptajöfnuði gagnvart útlöndum og gjaldeyrisflæði í jafnvægi.

Þegar síðasti stóri skellur dundi á íslenska hagkerfinu fyrir ríflega áratug síðan var sama staða uppi. En í stað þess að styðja við og styrkja sjávarútvegsfyrirtækin á Íslandi á tímum þar sem útflutningur og gjaldeyrissköpun skiptu öllu fyrir íslenska hagkerfið, voru skattar á útgerðina hækkaðir með álagningu veiðigjalda.

Útfærsla veiðigjaldanna hefur tekið einhverjum breytingum síðan þau voru fyrst færð í lög, en enn þá þurfa útgerðarfyrirtæki að standa skil á fleiri milljörðum króna ár hvert umfram það sem greitt er af skatti á hagnað fyrirtækja. Álagning veiðigjalda nam 6,6 milljörðum króna árið 2019 og 11,3 milljörðum 2018. Þegar þessar tölur eru lagðar á borðið eiga alltaf einhverjir það til að spyrja sig: „Af hverju borga þau ekki meira?“ og setja gjarnan upphæð álagðra veiðigjalda í samhengi við rekstrarniðurstöðu útvegsfyrirtækja með starfsemi hér á landi.

Í stað þess að velta fyrir sér hvernig ríkissjóður getur kreist sem flestar krónur út úr útgerðarfyrirtækjum, væri ekki skynsamlegra að velta því upp hvernig samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs á erlendri grundu getur aukist, eða í það minnsta haldist gagnvart keppinautum?

Ísland tilheyrir hópi fremstu fiskveiðiþjóða heims, bæði þegar kemur að tæknistigi og umfangi. Við skerum okkur hins hins vegar úr með því að vera eina þjóðin sem leggur sérstakar álögur á fyrirtæki sem stunda fiskveiðar. Nánast alls staðar í heiminum njóta útgerðarfyrirtæki opinberra styrkja, niðurgreiðslna eða skattaívilnana af einhverju tagi. Raunar er það svo að árið 2018 námu niðurgreiðslur opinberra aðila til sjávarútvegs víða um heim yfir 35,4 milljörðum dollara, eða tæplega 4.500 milljörðum íslenskra króna, að því er kemur fram í rannsókn sjávarútvegsstofnunar háskólans í British Columbia í Kanada sem birtist haustið 2019.

Útgerðir innan Evrópusambandsins, sem teljast meðal annarra til beinna keppinauta íslenskra útgerðarfyrirtækja, fengu um 482 milljarða í niðurgreiðslur af ýmsu tagi árið 2018, samkvæmt sömu rannsókn. Aðrir keppinautar Íslands fengu einnig fúlgur fjár í niðurgreiðslur. Niðurgreiðslur til norskra útgerða námu um 108 milljörðum króna árið 2018.

Rússneskar útgerðir höfðu 192 milljarða króna til að spila úr frá hinu opinbera þar í landi sama ár, einna helst til að fjárfesta í skipaflota og landvinnslu. Rússland hefur lengi verið bæði mikilvægur viðskiptavinur en á sama tíma keppinautur Íslands í sjávarútvegi. Árið 2010 settu rússnesk stjórnvöld sér það markmið að í að minnsta 80% af innlendri eftirspurn eftir sjávarfangi yrði fyllt af rússneskum útgerðum. Samkvæmt umfjöllun bandaríska landbúnaðarráðuneytisins hefur það lágmark verið fært upp í 85% frá og með yfirstandandi ári.

Árið 2018 námu niðurgreiðslur opinberra aðila til sjávarútvegs víða um heim yfir 35,4 milljörðum dollara eða tæplega 4.500 milljörðum íslenskra króna.

Miklar fjárfestingar rússneskra útgerða á síðastliðnum árum fyrir atbeina hins opinbera hafa hins vegar orsakað að þetta hlutfall stendur nú í tæplega 155% og því einsýnt að markaðssetning rússneskra sjávarafurða á alþjóðlegum vettvangi mun eflast á næstu árum, en landaður og fullunninn afli sem rússneskar útgerðir hafa úr að spila hefur aukist mikið á síðustu árum. Íslenskur útflutningur gæti því misst spón úr aski sínum, einkum vegna þess að Rússar státa af stórum þorskstofnum í fiskveiðilögsögu sinni.

Fyrirséð er að hægjast mun á gangi íslenska hagkerfisins á næstu misserum og stjórnvöld þurfa því að spyrja sig að því hvort þau vilji styðja við sjávarútveginn, þennan langlífa máttarstólpa íslensks efnahagslífs, eða halda áfram að veikja hann?

Nú heyrast raddir um að lækka ætti raforkuverð til álversins í Straumsvík til að halda því rekstrarhæfu. Líka er sagt að mikillar uppbyggingar hinna ýmsu innviða landsins sé þörf til að standa undir vaxandi álagi á þá, einkum vegna þeirrar aukningar sem orðið hefur vegna ferðamannastraumsins síðastliðin tíu ár. Bæði stóriðjan og ferðaþjónustan eru mikilvægar atvinnugreinar sem byggja á hagnýtingu náttúruauðlinda á Íslandi. Mörgum finnst sjálfsagt og eðlilegt að hið opinbera styðji við þessar greinar með ýmsum hætti, enda íslenska hagkerfinu mikilvægar. Af hverju ættu að gilda önnur lögmál um sjávarútveg?

Með þessu er ekki verið að segja að hið opinbera eigi að veita íslenskum sjávarútvegi einhverja meiriháttar meðgjöf eins og tíðkast víða um heim. En í það minnsta skulum við byrja á að endurskoða eða aflétta þeirri skattbyrði sem útgerðarfyrirtæki þurfa að standa undir umfram aðrar atvinnugreinar hér á landi.

Miðað við allar þær ívilnanir sem keppinautar okkar í sjávarútvegi njóta í sínum heimalöndum, þarf ekki að spyrja að leikslokum að óbreyttu.

Höfundur er sérfræðingur á sviði hrávörumarkaða og sjálfstætt starfandi.

Greinin birtist fyrst í Markaðinum, viðskiptablaði Fréttablaðsins.