Mér þykir vænt um Ríkis­út­varpið. Í um það bil í sjö­tíu ár hef ég verið trúr hlustandi þess. Það er að segja einkum þess hluta dag­skrárinnar sem nú kallast Rás 1. Í öll þessi ár hefur það veitt mér mikla á­nægju og miðlað dýr­mætum fróð­leik.

Ég er einnig alinn upp við að hlusta á tón­list. Tón­list var í há­vegum höfð á æsku­heimili mínu. Því má segja að ég hafi hlotið það sem kalla má gott tón­listar­upp­eldi. Þar átti Ríkis­út­varpið sinn stóra þátt.

Ég hef áður drepið á þetta mál. En nú er Snorra­búð stekkur. Í fyrsta lagi er stöðugt verið að fylla upp í dauðan tíma í út­varpinu með alls konar tón­listar­flutningi, eins konar kynningar­stefjum í byrjun hvers þáttar.

Þessir tón­listar­bútar eru oft lang­dregnir og greini­lega hugsaðir til upp­fyllingar. Þeir eru endur­teknir dag eftir dag og verða þá fljót­lega á­kaf­lega hvim­leiðir. Hlustandinn neyðist til að hlusta á þá annars á hann á hættu að missa af byrjun næsta þáttar. Þessi ó­siður er sér­stak­lega á­berandi þegar hlustað er á Morgun­vakt Rásar 1. Í öðru lagi er endur­tekið efni að verða sí­fellt fyrir­ferðar­meira í dag­skránni. Oft er sjálf­sagt að nota gamlar upp­tökur en fyrr má nú rota en dauðrota.

Þá má spyrja sig. Hvað er það sem veldur þessari þróun niður­lægingarinnar? Ég veit lítið sem ekkert um rekstur fjöl­miðla en mig grunar að þarna sé peninga­skortur aðal­á­stæðan. Í sam­fé­lagi okkar eru sterk öfl sem vilja veg Ríkis­út­varpsins sem minnstan, helst að því verði lokað fyrir fullt og allt. Þá eru menn fljótir að gleyma öryggis­hlut­verki stofnunarinnar. Það kostar að reka stofnun eins og Ríkis­út­varpið. Ó­hóf­legur sparnaður í kostnaði við mönnun þess er nú þegar farinn að segja illi­lega til sín.