Varaformaður SÁÁ upplýsir okkur um starf og nám áfengis- og vímuefnaráðgjafa SÁÁ og segir frá því sem rétt er að það sé lykilfólk í því meðferðarstarfi sem fram fer hjá samtökunum. Hvernig stuðlar stjórnin að því að efla stétt áfengisráðgjafa? Hann segir að vímuefnaráðgjöf sé í stöðugri þróun eftir því sem þekkingu á fíknsjúkdómnum fleygir fram án þess að gera grein fyrir þessu með nokkrum gögnum. Á öðrum stað rómar formaður samhug innan stjórnar og kallar svikamál gagnvart Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) ágreining á milli SÍ og SÁÁ um fyrirkomulag meðferðarþjónustu samtakanna í heimsfaraldrinum. SÁÁ er í góðum málum hvað sem öllu öðru líður fullyrðir formaðurinn eins og hún hafi ekki lesið opinbert bréf frá SÍ frá 29. desember 2021. Héraðssaksóknari er að skoða málið er varðar að árið 2020 var lokað fyrir þjónustu á göngudeild SÁÁ frá apríl og alveg fram í mars 2021. Inni í lokaðri göngudeildinni, sátu ráðgjafar og hringdu óumbeðið í fólk eftir úthringilistum sem stjórnendur meðferðarsviðs afhentu þeim í byrjun hvers dags. Símtöl þessi voru yfirleitt óformlegt spjall sem stóð yfir í ca 5-10 mínútur. Meintur þjónustuþegi var sjálfur alveg grunlaus um að hann væri í „meðferð“. Fjársvikin hafa verið viðurkennd af SÁÁ þar sem búið er að endurgreiða 3801 tilhæfulausa reikninga vegna þjónustu sem var aldrei veitt sem er 36.071.490.-kr. Greiðslan er staðfesting á vanhæfni stjórnenda og framkvæmdastjórnar SÁÁ í öllu þessu máli. Málinu er þar með alls ekki lokið þar sem það á eftir að koma niðurstaða vegna ákærunnar og enn stendur eftir vanefndir samtakanna vegna þjónustusamnings sem eru um 140. milj. Formaður og varaformaður fara hér fram fyrir alþjóð með orðavaðal án nokkurs rökstuðnings og upplýsingum um stöðu mála á formi gagna. Af hverju eru þau ekki með tölfræðiupplýsingar og línurit um þróun í þjónustunni sem ávallt einkenndi málflutning samtakanna? Hvernig hefur þekkingunni fleygt fram? Hvað felur það í sér? Ég sakna þess að forustan hjá SÁÁ fjalli um starfið með skýrri og upplýsandi tölfræði til að kynna stöðu og þróun vanda þeirra sem leita meðferðar. Í tíð fyrri stjórna var metnaður á þessu sviði og SÁÁ þekkt fyrir að halda vel utanum tölfræði og kynna hana með skýrum hætti. Af hverju erum við hætt að fá slíkar upplýsingar? Starfsemi SÁÁ virðist vera orðin einkamál starfsmanna og forustan hangir með.