Tímabundin framleiðslustöðvun kísilvers PCC á Bakka, með tilheyrandi minni raforkukaupum, er enn eitt höggið sem Landsvirkjun verður fyrir á skömmum tíma. Áður hafði Landsvirkjun lækkað verð til stórnotenda um allt að 25 prósent vegna erfiðra markaðsaðstæðna. Þær verðlækkanir kosta fyrirtækið um 1,5 milljarða á þessu ári. Ekki síðra áhyggjuefni, eins og fjallað var um í Markaðinum í vikunni, er það hrun sem orðið hefur á raforkuverði í Evrópu. Nýjasti orkusamningur Landsvirkjunar við Norðurál, sem tók gildi í nóvember, er tengdur verðinu á Nord Pool-markaðinum en það hefur lækkað um meira en 90 prósent á síðustu sex mánuðum. Landsvirkjun, sem er með engar áhættuvarnir gegn verðsveiflum á Nord Pool, verður því fyrir umtalsverðu tekjufalli á árinu sem setur strik í reikninginn varðandi arðgreiðslur til ríkissjóðs.

Mikil vandræði, ásamt erfiðum aðstæðum á hrávörumörkuðum, hafa einkennt starfsemi PCC frá því að verksmiðjan var gangsett í maí 2018. Kísilverið náði nýlega samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu við lánveitendur og hluthafa, sem eru meðal annars lífeyrissjóðir og Íslandsbanki, til að bæta bágborna lausafjárstöðu þess. Frá þeim tíma hefur hún versnað frekar. Lífeyrissjóðirnir og bankinn eiga mikilla hagsmuna að gæta en fjárfesting þeirra í verksmiðjunni, í formi hlutafjár og breytanlegs skuldabréfs, nemur yfir 10 milljörðum. Vegna mikillar óvissu um starfsemi kísilversins hafa íslensku fjárfestarnir fært niður virði hlutafjár síns í PCC nánast að fullu, eða fyrir um tvo milljarða. Horfur á kísilmálmmarkaði eru ekki góðar en matsfyrirtækið Fitch telur að verðið muni lækka enn á þessu ári – það lækkaði um 20 prósent í fyrra – og að viðsnúningur verði í fyrsta lagi á næsta ári og batinn verði þá hægur og viðkvæmur.

Erfið staða á ál- og kísilmarkaði ásamt lækkandi raforkuverði í Evrópu þrengir að Landsvirkjun.

Landsvirkjun réðst í stefnumótun fyrir um áratug með það að markmiði að reyna að skjóta breiðari stoðum undir tekjugrunn félagsins og auka arðsemi af raforkusölu. Niðurstaðan var að veðja einkum á uppbyggingu kísilversiðnaðar og gagnavera. Tvö kísilver voru að lokum reist – önnur voru að auki á teikniborðinu – og tóku til starfa 2016 og 2018 en síðar í þessum mánuði verða hvorug þeirra í rekstri. Óþarfi er að fjölyrða um sögu United Silicon í Helguvík – hún einkennist af fúski og svindli – sem hefur kostað Arion banka og lífeyrissjóði gríðarlegar fjárhæðir. Raunveruleg hætta er á því að kísilverið á Bakka muni hljóta sömu örlög, þó að ástæðurnar verði aðrar. Uppbygging gagnaversiðnaðar hefur heppnast betur en þar er einnig tekið að halla undan fæti, meðal annars vegna þverrandi samkeppnishæfni Íslands, sem sýndi sig í ákvörðun Advania um að ráðast í stórfellda uppbyggingu nýs gagnavers í Svíþjóð fremur en hér á landi. Sú þróun er áhyggjuefni.

Erfið staða á ál- og kísilmarkaði ásamt lækkandi raforkuverði í Evrópu þrengir að Landsvirkjun. Samningsstaða þess gagnvart Rio Tinto, eiganda álversins í Straumsvík, hefur því miður veikst en álrisinn, einn mikilvægasti og verðmætasti viðskiptavinur Landsvirkjunar, hótar að draga frekar úr framleiðslu sinni og mögulega skella í lás. Sennilegt er að Landsvirkjun verði nauðugur sá einn kostur að samþykkja tímabundna lækkun á orkuverðinu til Rio Tinto þangað til álverð á heimsmarkaði tekur að hækka á ný – sem enginn veit hvenær gerist. Stjórnendur Landsvirkjunar eru ekki í öfundsverðri stöðu í þeim breytta veruleika orkumála sem við stöndum nú frammi fyrir.