Næsta strætóstoppistöð frá nýju hverfi í Gufunesi í Reykjavík er í um 30 mínútna göngufjarlægð frá hverfinu. Almennt séð er það skellur að þurfa að reima á sig gönguskó til þess að komast í almenningssamgöngur í höfuðborg, en sérstaklega á þeim stað sem um ræðir. Hverfið var kynnt sem vistþorp þar sem hægt væri að sleppa því að eiga bifreið. Íbúðunum fylgir þannig til dæmis ekki bílastæði og deilibifreiðar áttu að vera á svæðinu. Íbúðirnar eru enn fremur hugsaðar fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.

Vel getur verið að til standi að strætóleiðir tengist svæðinu með tíð og tíma, en þegar hverfi eru sérstaklega kynnt með þessum hætti þarf að tryggja efndir frá fyrsta degi.

Nú er búið að afhenda lykla og enginn strætó kemur á svæðið, en líf þeirra sem eru fluttir inn stoppar ekki. Einhvern veginn þarf fólkið að geta verið frjálst ferða sinna og komist á milli staða, til vinnu, skóla og svo framvegis.

Setja má spurningarmerki við fleiri atriði í tengslum við möguleika á bíllausum lífsstíl í hverfinu og það er fjarlægð frá annarri nærþjónustu. Í umræðum um fyrirætlanirnar í borgarstjórn spurði undirrituð fulltrúa borgarstjóra til dæmis um það hvernig hann sæi fyrir sér að börn kæmust í skólann, en næstu grunnskólar eru í um 2 km göngufjarlægð og liggur leiðin meðal annars um óbyggt svæði, það er úr Gufunesi og yfir í grunnskóla í Grafarvogi. Svarið var á þá leið að skólarútur myndu aka til og frá þorpinu. Önnur spurning er leikskólafyrirkomulag, en án leikskóla í göngufjarlægð verður bílleysið afar krefjandi.

Í öðrum nýlegum hverfum hafa íbúar þurft að bíða í ár eða áratugi eftir nærþjónustu. Áhugafólki um skipulag er strokið öfugt þegar borginni tekst hér að skapa slík vandamál á nýjum stað og fjölga íbúum sem sífellt eru að bíða eftir að glærurnar lifni við. Ólíklegt er að margir óski sér borgaryfirvöld sem selji fyrstu kaupendum og ungu fólki íbúðir með loforðum um bílleysi og umhverfisvænan lífsstíl sem síðan eru ekki efnd með sómasamlegum hætti.