Ekki er mjög líklegt að hið fremur værukæra mannkyn hafi tekið kipp við nýlegar fréttir um að innan tuttugu ára gæti norðurskautið orðið íslaust að sumri til. Eins og Stöð 2 sagði frá í fréttatíma sínum síðastliðið þriðjudagskvöld er þetta hin nöturlega niðurstaða eftir umfangsmesta vísindaleiðangur sem farinn hefur verið á norðurskautið. Honum er nýlokið eftir að hafa staðið í ár og tugir vísindamanna, víðs vegar að úr heiminum, tóku þátt í honum.

Breytingarnar á norðurskautinu gerast mjög hratt og þær skipta sannarlega máli fyrir veðurfar um allan heim. Ofsaveður munu verða enn tíðari en nú er og valda skelfilegum hörmungum. Tuttugu ár eru ekki langur tími til að bregðast við þeirri ógn sem blasir við.

Ótal ráðstefnur hafa verið haldnar á síðustu árum þar sem sérfræðingar vara við ógnvænlegri þróun í loftslagsmálum og almenningur er kvíðafullur vegna stöðunnar. Nútímabörn óttast þessa vá í sama mæli og börn kaldastríðsáranna óttuðust kjarnorkustyrjöld. Samt gerist svo að segja ekkert. Það lýsir góðum vilja að álykta og veifa mótmælaspjöldum og krefjast aðgerða en það nægir samt ekki. Þróunin á norðurskautinu hefur verið til umræðu í þó nokkurn tíma. Nú er komin tímamæling sem er sú að mannkynið hafi tuttugu ár til að snúa þróuninni við með minnkun gróðurhúsalofttegunda.

Markus Rex, leiðangursstjóri vísindaleiðangursins, segir að ekki sé öll von úti um að þetta takist. Ekki skal hér gerð tilraun til að lesa í huga þess ágæta manns en vel má ímynda sér að þótt hann tali kjark í mannkyn sé hann innst inni heldur vonlítill um að skelfilegri þróun verði snúið við. Svo margt þyrfti að breytast í lífsháttum okkar til að það takist og mannkynið er gefið fyrir að hafa það eins gott og mögulegt og er. Nú er mannkynið upptekið við að fylgjast með tölum um COVID-smit og dauðsföll. Þegar COVID-tímabilinu lýkur er líklegt að mannkynið fyllist kæruleysislegri ofsagleði og missi sig í stjórnlausa eyðslu með tilheyrandi sóun og mengun.

Langlíklegast er að ekkert sérstakt muni gerast í baráttunni gegn loftslagsvánni og tíminn líða án aðgerða. Með venjulegu millibili munum við ranka við okkur fyrir framan kvöldfréttir sjónvarpsstöðva þar sem okkur verður sagt að við höfum sautján ár til að forða því að norðurskautið verði íslaust… tólf ár… sjö ár… þrjú ár… Eitt kvöldið kemur síðan fréttin að um hásumar sé norðurskautið nú orðið svo til íslaust. Þá andvörpum við og minnumst allra fréttanna sem hafa dunið á okkur árum saman um ofsaveðrin sem hafa kostað fjölda mannslífa og valdið gríðarlegu tjóni. Já, hugsum við, það hefði átt að bregðast við meðan enn var tími til. Og við hristum höfuðið og botnum ekkert í af hverju það var ekki gert. Við höfum vissulega rankað við okkur, en það gerðist bara of seint.

Loftslagsváin vofir yfir okkur og mun ekki hverfa meðan viðbrögðin eru helst þau að sitja með hendur í skauti og aðhafast lítið sem ekkert.