Um margar ólíkar leiðir er að ræða þegar fengist er við meðferðarúrræði fyrir fólk sem glímir við áfalla- og streituraskanir og fíknivanda – enda er gjarnan tekist á um málaflokkinn fyrir opnum tjöldum. Fræðin eru margvísleg, margt sem vísindin hafa enn ekki svarað og margt hefur verið reynt í gegnum aldirnar. Í dag er helst um að ræða tvær ríkjandi nálganir til meðferðar einstaklinga með fíknivanda.

Meðferðastöðin Hazelden Betty Ford var upphaflega byggð á hugmyndafræði hins svokallaða Minnesota-líkans og byggir að sumu leyti enn á þeirri nálgun, sem var fyrst kynnt til sögunnar á sjöunda áratug síðustu aldar. Líkanið gengur einna helst út frá kenningum um að alkóhólismi sé ólæknandi heilasjúkdómur og hafi ekki í för með sér einkenni annars konar undirliggjandi raskana í tengslum við félagslegar aðstæður eða afleiðinga ofbeldis og áfalla.

Háskólinn Hazelden Betty Ford Graduate School of Addiction Studies er sjálfstæð stofnun sem kennir fíknifræði og þykir mjög framarlega í þeim efnum. Þar hefur kenningum Minnesota-módelsins verið mestmegnis skipt út fyrir nýjar kenningar um tengsl fíknar við áföll og geðvanda. Háskólasamfélagið er raunar mjög gagnrýnið á líkanið sem kennt er við höfuðstöðvar háskólans, í Minnesota. Áherslan í náminu var ekki síst á einstaklingsmiðaða nálgun. Nemendur læra að bera kennsl á og skima fyrir geðvanda, persónuleikaröskunum og áföllum þó svo að gráðan gefi ekki faglegt leyfi til slíkrar greiningar hér á landi.

Undirritaðar hafa síðastliðin ár (og aðrir fíknifræðingar enn lengur) reynt að fá lögverndað starfsheiti hjá Embætti landlæknis. Svörin sem við höfum fengið frá embættinu eru þau að við uppfyllum ekki þau skilyrði og viðmið sem sett eru fram af fagráði innan embættisins. Fagráðið sem þar starfar er meðal annars mannað af einstaklingum sem hafa haft eða hafa enn aðkomu að rekstri og starfi SÁÁ. Þau viðmið sem sett eru og koma í veg fyrir að undirritaðar hljóti lögverndað starfsheiti, eru einmitt þau viðmið sem kennd eru á sérstöku þriggja ára námi sem SÁÁ heldur eingöngu fyrir starfsfólk meðferðarstofnana á sínum snærum. Löggilding okkar fagstéttar er mikilvægur liður í því að fleiri leiðir séu í boði fyrir þá sem vilja leita sér hjálpar við fíknivanda. Löggildingin felur í sér að skjólstæðingar geta leitað til Landlæknisembættisins ef þeim finnst á þeim brotið og einnig gefið þeim kost á að fá þjónustuna niðurgreidda.

Mikilvægt er að virðing sé borin fyrir starfi fagstétta sem vinna að því að bæta líf fólks með fíknivanda. Margir sem þjást af slíkum vanda eiga við annars konar vandkvæði að etja eins og geðraskanir og áfallastreituröskun svo dæmi séu nefnd. Í starfsnáminu á Hazelden Betty Ford var kennt hvernig hinar ýmsu fagstéttir, læknar, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar, geðlæknar og fíknifræðingar; allt fagmenn með meistara- eða BA-gráðu, geta unnið saman að því að veita sem fjölbreyttasta og bestu þjónustu sem völ er á. Enginn vafi leikur á því hvaða hlutverki fagstéttir gegna. Fíknifræðingar vísa skjólstæðingum til sálfræðinga og geðlækna þegar við á og stundum er því öfugt farið.

Sameiginlegt markmið okkar allra sem höfum valið okkur þennan starfsvettvang er að aðstoða fólk að ná bata frá fíknivanda. Bati tekur á sig ólíkar myndir og gæti bati hjá einum litið út sem algert fráhald frá áfengi – eða öðrum vímuefnum. Hjá öðrum gæti batinn falist í því að eiga sem flesta góða daga án hugbreytandi efna þrátt fyrir að „fall“ eigi sér stað. Mikilvægt er að mæta einstaklingum með það sem þeir geta svo þeir upplifi ekki að þeir hafi ekkert vald yfir eigin lífi. Því er mikilvægt að boðið sé upp á fjölbreytt úrræði og að fagaðilar sameinist í að þjónusta þennan hóp. Vinnum saman að velferð þeirra sem þjást af fíknivanda.

Höfundar starfa á meðferðarstofunni Varðan, Borgartúni 28.

Guðrún Magnúsdóttir MA fíknifræði, nemi í áfallameðferðarfræðum S2S.

Guðrún Jóhannsdóttir MA fíknifræði

Vagnbjörg Magnúsdóttir MA fíknifræði, meistaranemi í heilbrigðisvísindum með áherslu á sálræn áföll og ofbeldi og nemi í áfallameðferðarfræðum S2S.