Höggið er ekki komið fram. Ráðstöfunartekjur alls þorra launafólks hafa enn ekki minnkað þótt um 40 þúsund manns séu nú án atvinnu, annaðhvort á atvinnuleysisskrá eða á hlutabótaleiðinni, og þá hafa eins margir aukið tekjur sínar tímabundið með því að nýta sér úrræði um frystingu íbúðalána og úttektum á séreignasparnaði. Þetta mun breytast að uppsagnarfresti loknum í haust og við tekur sú grafalvarlega staða að um tíu prósent alls fólks á vinnumarkaði – mögulega enn fleiri – verða komin á strípaðar atvinnuleysisbætur. Í þeim skilningi er nú svikalogn. Við tekur tímabil langvinns atvinnuleysis, mun meira en við höfum nokkurn tíma áður upplifað, og mikill samdráttur í einkaneyslu.

Seðlabankastjóri leyfði sér í liðinni viku að segja það sem við blasir flestu óbrjáluðu fólki. Forystufólk verkalýðshreyfingarinnar hefur ekki risið undir þeirri ábyrgð sem á henni hvílir í þessum efnahagslegu hamförum. Þegar skrifað var undir lífskjarasamninginn, skömmu eftir fall WOW air og fyrirsjáanlegur samdráttur var í kortunum í ferðaþjónustu, var vitað að þær hækkanir sem um var samið yrðu mörgum fyrirtækjum þungbærar. Í dag, þegar við stöndum frammi fyrir mestu efnahagskreppu í hundrað ár, þá þarf vart að taka það fram að geta atvinnulífsins til að taka á sig frekari launahækkanir er engin. Á sama tíma berast okkur þau tíðindi að launavísitalan hafi hækkað um 3,3 prósent í apríl – hún hefur hækkað um næstum 7 prósent síðustu tólf mánuði – sem er mesta aukning sem mælst hefur á milli mánaða í eitt ár. Aðeins kjáni getur látið sér detta í hug að þetta geti gengið upp án þess að illa muni fara.

Í stað þess að taka eitt skref aftur á bak, og gangast við því að við höfum farið fram úr okkur, þá kjósa menn frekar þverrandi samkeppnishæfni og holskeflu atvinnuleysis.

Allar forsendur um skuldastöðu og afkomu ríkissjóðs á næstu árum eru brostnar. Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að uppsafnaður fjárlagahalli 2020 og 2021 verði 490 milljarðar og þá munu skuldir ríkisins nærri tvöfaldast og verða um 50 prósent sem hlutfall af landsframleiðslu. Það er okkar gæfa, sem var ekki sjálfgefið, að við höfðum búið í haginn með skuldlítinn ríkissjóð og sterka stöðu þjóðarbúsins. Fjármálaráðherra hefur réttilega sagt að ekki komi til greina að skattleggja einkageirann til að fjármagna þennan mikla fjárlagahalla – slíkt myndi aðeins magna efnahagssamdráttinn – heldur verði að stöðva þá linnulausu aukningu sem hefur verið í vexti ríkisútgjalda um of langt skeið. Í þessum nýja veruleika, þar sem tekjur af okkar stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnugrein hafa nánast þurrkast út, höfum við ekki efni á að halda áfram á sömu braut.

Þetta verða erfiðir tímar á vinnumarkaði. Verkalýðshreyfingin hefur sýnt að þar er ekki að vænta samstöðu um aðgerðir sem gætu mildað höggið sem atvinnulífið er að taka á sig og um leið komið í veg fyrir enn meira atvinnuleysi. Frá forystufólki hennar koma engar raunhæfar lausnir, aðeins gífuryrði þar sem efnt er til ófriðar á hendur fólki og fyrirtækjum sem eru að leita leiða til að lágmarka skaðann meðan við komumst í gegnum þessa kreppu. Í stað þess að taka eitt skref aftur á bak, og gangast við því að við höfum farið fram úr okkur að undanförnu í innstæðulausum launahækkunum, þá kjósa menn frekar þverrandi samkeppnishæfni og holskeflu atvinnuleysis. Það er merkileg afstaða sem á eftir að verða okkur sem þjóð dýrkeypt til lengri tíma litið.