Í kvöld, 10. maí, fer fyrri undankeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, fram í Tórínó á Ítalíu. Íslensku fulltrúarnir eru meðal keppenda kvöldsins og freista þess að komast í aðalkeppnina sem verður á dagskrá næstkomandi laugardag. Ætla má að stór hluti íslenskrar þjóðar styðji í kvöld systurnar Siggu, Betu og Elínu sem flytja lag og texta tónlistarkonunnar Lay Low. Boðskapur lagsins, Með hækkandi sól, á vel við á umbrotatímum enda boðar það, eins og titillinn ber með sér, bjartari tíma.

Keppninni er ætlað að vera ópólitísk og keppendum uppálagt að halda sig frá pólitískum skilaboðum og áróðri. Í raun eru þátttakendur sektaðir fyrir slíkt og skemmst að minnast þess að RÚV þurfti að greiða fimm þúsund evrur eftir að meðlimir Hatara veifuðu palestínska fánanum í beinni útsendingu á lokakvöldi keppninnar í Ísrael.

Þó að keppninni sé ætlað að sameina fremur en sundra er erfitt að gleyma sér í einni stærstu gleði- og glimmerhátíð ársins, á meðan blóðugt stríð geisar í álfunni. Óumflýjanleg umræðan um mörk Eurovision og pólitíkur er hávær þessa dagana enda var Rússum, sem myrt hafa yfir þrjú þúsund óbreytta borgara í Úkraínu frá því í lok febrúar, meinuð þátttaka vegna innrásarinnar og spá allir veðbankar Úkraínu sigri. Það er þó alls ekkert einsdæmi að pólitík setji sitt mark á keppnina og er tilhneigingin til þess í raun rík. Átökin á milli Rússa og Úkraínumanna hafa áður verið til umræðu í keppninni en árið 2016, þegar Rússum hafði verið spáð sigri, stal úkraínska söngkonan Jamala sigrinum á lokametrunum með lag og texta sem verður ekki lýst öðruvísi en pólitískum.

Ákvörðunin um að banna Rússum að taka þátt var forsvarsmönnum keppninnar erfið og auðvitað af pólitískum toga. En á meðan Rússar sæta fordæmalausum viðskiptaþvingunum um heim allan eiga þeir ekkert erindi í keppni af þessum toga. Þátttaka þeirra hefði skyggt á aðra og það væri sorglegt ef pólitík og illdeilur fengju að taka yfir viðburð á borð við Eurovision. Því hvað sem okkur finnst um keppnina sjálfa er hún vissulega táknrænn viðburður þar sem Evrópa sameinast yfir poppi og prjáli til þess eins að hafa gaman, þrátt fyrir allt. En nú ríður á að leyfa ekki pólitískum skilaboðum að yfirtaka stemninguna og stigagjöfina, því þannig væri farið þvert gegn upphaflegu markmiði keppninnar og Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva, sem stofnað var eftir síðari heimsstyrjöldina til að ýta undir evrópskt samstarf og samstöðu.

Óbeit okkar á framgöngu Rússa má sýna á annan og skilvirkari hátt.