Nú þegar sögulega mikil hækkun fasteignamats er handan við hornið hafa ýmis sveitarfélög ákveðið að halda hlífiskildi yfir heimilinum með hófsemi í álagningu fasteignaskatta. Fasteignaskattarnir eru hluti af fasteignagjöldunum sem allir heimiliseigendur greiða og samanstanda af fasteignaskatt, lóðarleigu, sorphirðu-, vatns- og fráveitugjöldum. Höfundur mun til dæmis greiða um 250.000 kr í fasteignagjöld á þessu ári fyrir 105 fm. íbúð, en þar sem fasteignaskattarnir vega þyngst í þessari kvartmilljón munar það um minna fyrir borgarbúa ef þeim er stillt í hóf.

Eftir áramót hækkar fasteignamatið í Reykjavík um 18,7% að meðaltali samkvæmt Þjóðskrá. Þar sem borgin notar svokallað álagningarhlutfall til að reikna skattana út frá fasteignamatinu þýðir þetta að meðal heimili í Reykjavík mun greiða 18,7% meira í fasteignaskatta eftir áramót en fyrir áramót. Þetta er breytilegt eftir hverfum og tegund íbúða en flest heimili í Reykjavík eru að horfa fram á tugþúsunda króna hækkun.

Hlífiskjöldur nágrannasveitarfélagana er sá að lækka álagningarhlutfallið til að létta undir með heimilunum. Í fréttum var svar borgarstjórans í Reykjavík, Dags B. við þessu að álagningarhlutfallið væri þegar lægst í Reykjavík. Reyndar er Seltjarnarnesbær með lægsta álagningarhlutfallið en heilt yfir er það málinu óviðkomandi því málið snýst um hina endanlegu krónutölu sem heimilin eru látin greiða. Álagningarhlutfallið er bara verkfæri sem sveitarfélög nota til að reikna krónutölu skattsins og til að passa að krónutalan haldist í hendur við þróun verðlags og launa í landinu má hækka eða lækka álagningarhlutfallið eftir því sem við á.

Ætlar nýi meirihlutinn í borgarstjórn að beita sanngirni eða vera okurbúlla?

Væri Reykjavík að reka matvöruverslun þætti okkur alveg eðlilegt að borgin hækkaði verðið á vörunum í takt við verðbólguspá eða um 5% til að mæta 5% hækkun á rekstrarkostnaði. Hins vegar er staðan núna þannig að Reykjavík stefnir á að hækka vöruverðið í búðinni sinni um að meðaltali 18,7% að öllu óbreyttu, sem er langt umfram það sem þarf til að mæta hækkun rekstrarkostnaðar. Raunar hefur Reykjavík verið rukka íbúa sína meira en öll hin sveitarfélögin í landinu um nokkurt skeið þrátt fyrir þetta lága álagningarhlutfall sem borgarstjóri reynir að slá um sig með. Því 38% af heildartekjum allra sveitarfélaga landsins vegna fasteignaskatta renna til Reykjavíkur (m.v. 2021), þó svo Reykjavík sé með 36% af öllum íbúum landsins, og það eru engar smá upphæðir á bakvið þennan prósentumun.

Í dag leggjum við Sjálfstæðismenn í Reykjavík það til að Borgarstjórn samþykki að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatta á íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Það er hið minnsta sem Reykjavík getur gert til að hækkun fasteignamats leiði ekki til þess að Reykjavík okri á heimilunum í borginni.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.