Sú pólitíska spurning sem nú vegur hvað þyngst er hvort endurnýjað umboð núverandi stjórnarflokka verði til þess að síðasta kjörtímabil verði endurtekið.

Stjórnarflokkarnir eru hver öðrum ólíkari nema að tvennu leyti; þeim stendur beygur af frekari samvinnu við þjóðir Evrópu og óttast lagabætur sem þaðan koma, svo og alþjóðlega samninga sem eru neytendum til góða á kostnað framleiðslugreinanna hér á landi.

Svo vilja þeir, að því er virðist, lækka skatta á stórútgerðina fremur en almenning og lítil og meðalstór fyrirtæki, sjálft hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi sem skapar störf og helstu afleiðu þeirra, velferð.

Stóra spurningin er hvort þessir flokkar muni hjakka í sama farinu í fjögur ár enn. Og svarið við henni – byggt á fjögurra ára reynslu – er að á því eru meiri líkur en minni, þótt ekki sé miðað við annað en yfirlýsingar flokkanna þriggja í aðdraganda nýafstaðinna alþingiskosninga.

Ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna var mynduð á sínum tíma vegna pólitísks óstöðugleika áranna á undan þegar hver stjórnin af annarri féll vegna misjafnlega málefnalegra ástæðna, allt frá alþjóðlegu hneyksli til innanlandsklúðurs.

Og stjórnin fékk frið fyrir þær sakir, enda landsmenn orðnir þreyttir á síendurteknum uppákomum í íslenskri pólitík sem hafði ekki fyrr rétt úr kútnum eftir efnahagshrunið en að hún byrjaði að molna innan frá í allra handa skandal.

Svo kom farsóttin og vísindin áttu sviðið, pólitíkin setti sjálfa sig í aftursætið, blessunarlega – og var rekin af þeim bekk alla helftina af síðasta kjörtímabili.

Annað blasir nú við, svo sem stærsta áskorun í ríkisfjármálum frá því í hruninu – og raunar telja stöku fræðimenn að viðfangsefnið núna sé snúnara en fyrir rífum áratug. Og til þess að takast á við þennan vanda þarf að taka skjótar og erfiðar ákvarðanir í efnahagsmálum og atvinnumálum, svo og umhverfismálum – og raunar líka heilbrigðismálum.

Og það er einmitt í þessum fjórum málaflokkum sem téðir flokkar eru á tvist og bast í stefnuverki sínu. Það er ekki einu sinni hægt að hugsa sér þokkalega málamiðlun hvað þá varðar.

Gefur VG hálendisþjóðgarðinn eftir? Nei. Gefur Sjálfstæðisflokkurinn orkuuppbygginguna eftir? Nei. Ætla vinstrimenn að skera niður í opinberri þjónustu svo um munar? Nei. Munu Sjálfstæðismenn hækka skatta svo um munar. Nei.

Og munu Framsóknarmenn sitja þegjandi þarna á milli? Það er líka stóra spurningin