Þegar öllu er á botninn hvolft er það ágóðavonin sem knýr áfram hagkerfi heimsins. Og enda þótt innblásnar stólræður stjórnmálaforingjanna fjalli um það á tyllidögum að ríkasti hluti mannkyns þurfi að hægja á neyslu sinni og eyðslu er ekki að sjá að nokkurt lát verði á sókn þeirra efnameiri í allsnægtirnar og ofgnóttina.

Og á meðan svo er framleiða verksmiðjur heimsins þriðjungi meira af fötum og klæðnaði en not eru fyrir á meðal þjóða heims. Álíka sóunar sér stað í matvælaframleiðslu sem yfirfyllir ruslagáma landanna í lok hvers einasta dags.

Enn fleiri framleiðslugreinar eru svo keyrðar áfram af endurnýjunarþörfinni, en þess sér ekki síst stað í raftækjasmíði þar sem hagur framleiðandans er að varan endist sem styst svo eigandi hennar neyðist til að fá sér nýja.Sú veika von sem býr í brjóstum manna um að auðvaldsstefnan láti af þessum ósið og fari að virða móður jörð er ekki líkleg til að styrkjast á næstu árum. Línuritin í efnahag landanna sem heimta mest af plánetunni eru öll í sömu áttina, ofneyslan á gæðum jarðar mun halda áfram, jafnvel á meiri hraða en áður hefur þekkst.

Ágóðavonin ræður ríkjum. Vel má vera að hún eigi sér óvini. En þeir eru veikir og dreifðir og hafa ekki það sem þarf til að breyta nokkru svo ríkjandi handhafar auðsins muni hvika frá gróðahugsun sinni, nefnilega fjármagn. Þess vegna verður áfram gengið á jörðina af frekju og yfirgangi.

Hugsjónir munu enn um sinn víkja fyrir hagsmunum.Jafnvel bara nýliðið ár er okkur alvarleg áminning í þessum efnum. Því þrátt fyrir allar þessar vel meinandi alþjóðaráðstefnur um hlýnun jarðar og kreppu umhverfisins er það á endanum svo að fjárfestingar í kolum og olíu eru enn þá ábatasamastar í heimi hér. Verð á kolum fór upp um 161 prósent á árinu 2021. Verð á hráolíu fór á sama tíma upp um 55 prósent.

Verð á gasi tók líka kipp og hækkaði um 47 prósent. Og auðvitað leita fjárfestingarnar þangað sem aurinn vinnur á hvað mestum hraðanum.Við erum enn stödd í þeim veruleika að kol – af öllum efnum jarðar – skila bestu árlegu ávöxtun hrávara og svo hefur einmitt verið í heilan áratug.

Og veruleikinn er líka sá að þörf á þessari gömlu orku mun vaxa gríðarhratt á næstu árum, ekki síst á meðal efnaminni þjóða sem vænta sömu lífskjara og ríkustu manneskjur jarðar gera í dag.