Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra steig fram og greindi orðræðuna sem átt hafði sér stað nýlega í Klaustursmálinu svokallaða sem ofbeldi og taldi að þarna væri um ofbeldismenn að ræða. Færa má rök fyrir því að þetta hafi verið rétt hjá Lilju þó að sjálf hafi hún verið víðs fjarri þegar þessar samræður áttu sér stað, því hún varð síðar vitni að þessum ummælum. Orð þessara alþingismanna sem áttu hlut að máli einkenndust af kvenfyrirlitningu. 

Þeir gerðu lítið úr Lilju og störfum hennar en þær athafnir endurspegla tilfinningalegt ofbeldi. Þeir gáfu í skyn að hún hefði komist áfram að einhverju leyti í pólitík með því að „beita kynþokka“ og töluðu gróflega um hana sem kynveru. Í því síðastnefnda var hún í raun bæði hlutgerð og klámgerð. Sá grófi talsmáti sem kom fram sem fól meðal annars í sér að hægt væri að fullnægja kynferðislegum þörfum sínum með henni þó það hafi verið orðað á mun grófari hátt, felur í sér kynferðislegt ofbeldi. Sumar birtingarmyndir kynferðislegs ofbeldis eru nefnilega munnlegar og fela ekki í sér snertingu.

En sú gríðarlega kvenfyrirlitning sem og fyrirlitning gagnvart minnihlutahópum sem kom fram í þessu samtali endurspeglar einnig feðraveldið (e. patriarchy) sem stundum er nefnt karlaveldi. Þetta birtist meðal annars í því að konur gætu fengið að vera með í pólítík en á forsendum karlmannanna. Þeir ættu í raun að halda um valdataumana. Þessi umræða sem átti sér þarna stað, sýnir svo ekki verði um villst, að það eimir ennþá eftir af því hér á landi. Þrátt fyrir góðan árangur Íslands í jafnréttismálum þá eigum við þó langt í land þar sem svo grófar feðraveldishugsanir og orð fyrirfinnast hjá manneskjum í jafn miklum ábyrgðarstöðum og þarna um ræðir. Ef við sem land umberum þessi ummæli og þetta fólk fær að sitja áfram við völd, segir það mikið um okkur sem samfélag. 

Er Ísland það mikið feðraveldissamfélag? Ætlum við að láta reka á reiðanum eða axla ábyrgð? Á Lilja og aðrir á þingi að þurfa að mæta slíkum mönnum dagsdaglega í starfi eftir að jafn óafsakanleg ummæli hafa fallið? Er eðlilegt að þeim sem sitja á þingi stafi ógn af samstarfsfólki sínu vegna viðhorfa þess og hegðunar? Vissulega ætti ekki að útskúfa ofbeldismönnum. Mikilvægt er að þeir geti tekið þátt í samfélaginu og vinna ætti að því að hjálpa þeim að iðrast gjörða sinna, en þeir ættu ekki að taka þátt í að stjórna því. Eins og Lilja segir réttilega, þeir ættu ekki að hafa dagskrárvald.