Skoðun

Endurkoma írskra hryðjuverka

Þriðjudaginn 5. mars s.l. neyddist hryðjuverkadeild bresku lögreglunar að tæma skrifstofur Heathrow-flugvallar eftir að smávægileg sprengja fannst í pakka sem þeim hafði borist fyrr um daginn. Kviknað hafði í umbúðunum þegar starfsmaður reyndi að opna pakkann og fór lögreglan fljótlega að gruna að um einhverskonar hryðjuverk væri að ræða. Málið er litið mjög alvarlegum augum þar sem svipaðar pakkningar voru einnig sendar á Waterloo-lestarstöðina og til borgarflugvallarins í London. Pakkarnir voru dulbúnir sem ýmis konar brúðargjafir, en frímerkin áttu hinsvegar öll sama uppruna: Írland.

Mikil umræða hefur átt sér stað á Bretlandseyjum seinustu mánuði um þau áhrif sem Brexit gæti haft á þann friðarsáttmála sem batt enda á stríðsátök Norður-Írlands árið 1998. Átökin höfðu þá staðið yfir frá lok sjöunda áratugarins þegar kaþólski minnihluti landsins byrjaði að mótmæla mismunun í garð þeirra af hálfu mótmælenda sem sátu við stjórn í Belfast. Deilan á milli þessarra tveggja hópa byrjaði fljótlega að stigmagnast í ofbeldisverk og á endanum var breski herinn sendur inn til að reyna stilla til friðar. Á næstu áratugum myndu þúsundir manna láta lífið í skot-og sprengjuárásum á milli þjóðernissinnaða hryðjuverkasamtakanna IRA, sem vildu sameinast Írlandi og sambandssinnuðum mótmælendasamtökum, sem voru hliðholl bresku ríkisstjórninni. Sá viðkvæmi friður sem hefur staðið yfir seinustu 20 árin var síðan dreginn í efa fyrr á þessu þessu ári í janúar þegar bílasprengja sprakk fyrir utan dómshúsið í Derry á Norður-Írlandi. Sem betur fer lét enginn lífið í þeirri sprenginu, en margir fóru fljótlega að lýsa yfir áhyggjum um endurkomu slíkra árása.  

Þar sem meginástæður átakanna voru aldrei leystar til að byrja með, má í raun segja að sá friðarsáttmáli sem var undirritaður á föstudeginum langa árið 1998 var einungis vopnahlé. Augljós rýgur ríkir ennþá á milli kaþólikka og mótmælenda í borgum landsins. Í höfuðborginni Belfast má til dæmis sjá 6 metra háa steinsteypta veggi sem skilja að íbúðarhverfi þessarra tveggja hópa.

Tvær vikur eru síðan ég kom heim frá Belfast þar sem ég var að vinna við gerð á stuttri heimildarmynd sem fjallar nákvæmlega um þetta málefni. Þeir heimamenn sem ég tók viðtal við lýstu allir yfir sömu áhyggjum. Eins og er liggja opin landamæri á milli Írlands og Norður-Írlands, en ef Bretland gengur hinsvegar samningslaust út úr Evrópusambandinu gætu þau landamæri lokast á ný og opnað verður fyrir vegatálma. Einnig situr mótmælendastjórn lýðræðislega sambandsflokksins (DUP) nú við stjórn á Norður-Írlandi og er sá flokkur mest hliðhollur útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Sú blanda samanlögð við áratuga-langa gremju og núverandi efnahagsleg vandamál gætu gefið skæruliðahreyfingum landsins ástæður til enn frekari árása.

Þær litlu sprengjur sem bárust nú í þessari viku til London eru vonandi bara einsdæmi, en það er greinilega farið að hitna verulega í kolum á þessu svæði og aðgerðarleysi breskra stjórnvalda er ekki að hjálpa. Samkvæmt áætlun mun Bretland yfirgefa Evrópusambandið í þessum mánuði og eins og er hefur engin lausn fundist á þeim viðræðum. Það veit í raun enginn hvað mun gerast eftir það en þessi vikar hefur sýnt fram á það að ef írska hryðjuverkaógnin fær sína endurkomu þá verður erfitt að tryggja öryggi íbúa á Bretlandseyjum á næstu misserum. 

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Skoðun

Nýtt ár, nýtt Kína
Helgi Steinar Gunnlaugsson

Skoðun

Meira en nóg
Kolbrún Bergþórsdóttir

Skoðun

Ljótur leikur
Oddný Harðardóttir

Auglýsing

Nýjast

Túristabrestur
Guðmundur Steingrímsson

Týnda stúlkan
Lára G. Sigurðardóttir

Böl Íslendinga
Sif Sigmarsdóttir

Neyðarlending
Kristín Þorsteinsdóttir

Nor­ræn sam­vinna, horn­steinn í al­þjóð­legu sam­starfi
Steingrímur J. Sigfússon

Tvísýn staða
Hörður Ægisson

Auglýsing