Þessa dagana er verið að klára að gera upp Stórasel vestur í bæ, gamalt tómthúsbýli á baklóð við Holtsgötu. Minjavernd hf. stendur að verkinu. Þarna var reistur tvöfaldur steinbær á árunum 1884 til 1893 en hann hafði tapað upprunalegum einkennum sínum og var orðinn mjög hrörlegur. Fyrir fáeinum misserum gerðu Reykjavíkurborg og Minjavernd með sér samning um endurgerð nokkurra húsa í borginni, þar á meðal Stórasels og Gröndalshúss sem var flutt frá Vesturgötu að Fischersundi með viðkomu úti á Granda.

Kostnaður við endurgerð gamalla húsa í borginni hefur verið mikið í umræðunni frá síðustu kosningum. Mörgum blöskrar hvað þær kostnaðaráætlanir reynast oft haldlitlar þegar á reynir. Það er augljóslega mikilvægt fyrir borgaryfirvöld að bæta vinnubrögðin. Ég tel samt að þegar fram í sækir muni flestir telja að það hafi verið þjóðþrifaverk að ráðast í vandaða endurgerð þessara húsa.

Ákvörðun borgaryfirvalda um síðustu aldamót að taka Geysishúsið við Aðalstræti í gegn og Hafnarstræti 16 skipti miklu máli. Enn stærra skref var tekið þegar gömlu húsin við Lækjargötu 2 og Austurstræti 22 voru endurgerð af miklum metnaði eftir brunann mikla þar á horninu árið 2007. Kostnaðurinn var mikill og framkvæmdin umdeild. Í dag eru flestir ánægðir með þessi fallegu nýju/gömlu hús.

Síðustu misserin hafa einkaaðilar staðið fyrir metnaðarfullri endurgerð gamalla húsa við Hafnarstræti. Svolítið vestar, við Tryggvagötu, er búið að endurbyggja gömlu Fiskhöllina og Exeterhúsið. Til mikillar prýði.

Margt fleira mætti nefna. Þyrping gamalla húsa við Vitastíg, milli Laugavegs og Hverfisgötu, er að þéttast og ganga í endurnýjun lífdaga sinna. Sama er að segja um timburhúsaröðina við Vallarstræti. Tímabærar endurbætur glerskálans á Hlemmtorgi, sem varð 40 ára í fyrra, hafa heppnast vel, jafnvel þótt sú framkvæmd hafi verið kostnaðarsamari en til stóð, líkt og endurgert Gröndalshús. Nýlega stóð borgin ásamt HR fyrir endurbyggingu húsaþyrpingar frá stríðsárunum við Nauthólsveg sem hefur verið kölluð „bragginn“. Eins og frægt er.