Einu sinni spurði ég systur mína sem hafði mikið verið í ævintýraferðum hvort það væri ekki erfitt að hætta þeim eftir að hún átti dóttur sína. Hún leit á unga dóttur sína og svaraði „jú, það voru vissulega ævintýraferðir en þetta er ævintýri á hverjum degi.“ Eftir að ég eignaðist börnin mín skil ég þetta enn betur.

Á Íslandi er talið að tólf til fimmtán þúsund konur þjáist af sjúkdómnum endómetríósu þó einungis um þrjú þúsund séu greindar. Tíundi hver einstaklingur sem fæðist í kvenlíkama þjáist af sjúkdómnum. Endómetríósa lýsir sér þannig að endómetríósufrumur setjast á yfirborðsþekju á hinum ýmsu líffærum, bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum líkamans, valda bólgum og blöðrur og samgróningar geta myndast. Þetta veldur miklum sársauka. Engin lækning er til.

Fyrir utan sársauka getur sjúkdómurinn meðal annars valdið þvagblöðru- og þarmavandamálum auk hárrar tíðni af ófrjósemi. Sjúkdómurinn getur haft áhrif á alla þætti lífsins – nám, starfsframa, efnahag, sambönd og almennt heilbrigði og velferð. Mikilvægt er að aðgengi sé að meðferð sérfræðings til þess að greina endómetríósu og meðhöndla það sem hægt er. Það vakti undrun mína þegar ung kona sem er mér nákomin sagði mér frá því nýlega að hún væri á leið í aðgerð hjá sérfræðingi í sjúkdómnum sem myndi kosta hana 700 þúsund krónur.

Getum við ekki tryggt betra aðgengi að þessari aðgerð án sligandi kostnaðar? Þannig getum við bætt líðan, lífsgæði og aukið möguleika kvenna með endómetríósu að njóta þess mikla ævintýris sem foreldrahlutverkið er. Mér skilst að málið sé í farvegi hjá ráðherra heilbrigðismála og vonandi fæst úrlausn fljótt. (sjá endo.is).