Á stofugólfinu heima hjá mér hér í London liggur nú ferðataska. Hún hefur legið þar öll jólin og er full af sparifötum og óopnuðum jólagjöfum. Taskan er tákngervingur einnar hættulegustu goðsagnar samtímans.

Síðasta dag ársins 2020 taldi ég mig upplifa sögulok. Tveim vikum fyrr hafði mér borist tölvupóstur um að loka þyrfti skóla barnanna vegna fjölda kórónaveirusmita. Til að gera langa sögu stutta fékk fjölskyldan hvert sinn kórónavírusinn í jólagjöf. Jólapakkar voru pantaðir á internetinu ásamt súrefnismæli og líftryggingu. Hangikjötið var soðið en enginn fann af því bragð. Sjaldan hafði jólasöngur Svölu Björgvins „Ég hlakka svo til“ átt jafnvel við – það var langt að bíða og allir dagar voru lengi að líða.

En svo fór að fjölskyldan var heimt úr helju og sóttkví. Þegar nýtt ár gekk í garð með mótefnavottorði töldum við Covid-sögu okkar lokið. En árið 2021 reyndist ár endalokanna sem aldrei urðu.

Hornsteinn tilverunnar

Á gamlársdag verður þess minnst að þrjátíu ár eru liðin frá því að Sovétríkin hrundu. Í kjölfarið lýsti bandaríski stjórnmálafræðingurinn Francis Fukuyama yfir „endalokum sögunnar“. Fukuyama taldi að hugmyndafræðilegri þróun mannkynsins væri formlega lokið. Hið eina rétta stjórnarfar, hið vestræna lýðræði, hefði í anda náttúruvals Darwins orðið ofan á og bolað burt óæðri stjórnarháttum á borð við harðstjórn, einræði og kommúnisma. Annað kom þó á daginn.

Í vikunni gerði Hæstiréttur Rússlands elstu mannréttindasamtökum landsins að hætta starfsemi. Fáir halda því fram að vestrænt lýðræði hafi orðið næsta skref í þróun stjórnarhátta í Rússlandi eftir fall kommúnismans. Enn fyrirfinnast þó þau sem láta blekkjast af mýtunni um sögulok.

„Síð­ustu ára­mót áttu að vera upp­haf nýrra tíma,“ ritaði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra í grein þar sem hún sagði það óforsvaranlegt að takmarka frelsi fólks mikið lengur til að koma í veg fyrir álag á heilbrigðiskerfið vegna Covid. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskólaráðherra tók í sama streng og sagði „önnur sjónarmið en sóttvarnir þurfa að heyrast“.

Heimsfaraldurinn hefur afhjúpað óhugnanlega staðreynd. Leikreglur samfélagsins – réttindi, lög og reglur – eru ekki sá óhagganlegi hornsteinn tilveru okkar sem við héldum. Hver hefði ímyndað sér fyrir tveimur árum að yfirvöld gætu til að mynda skert ferðafrelsi fólks án minnsta fyrirvara?

Áhyggjur Þórdísar og Áslaugar geta verið réttmætar. Fátt er mikilvægara en að vera á varðbergi gagnvart stjórnvöldum sem hefta frelsi borgaranna. En ekki frekar en lýðræði er frelsi sögulok.

Trump-ísk vending

„Ríkinu er aðeins heimilt að skerða athafnafrelsi samfélagsþegns gegn vilja hans valdi hann öðrum tjóni með aðgerðum sínum,“ segir í bókinni Frelsið eftir breska heimspekinginn John Stuart Mill.

Hugmyndin hljómar einföld í orði. En eins og ljóst hefur orðið á árinu er hún öllu flóknari á borði. Hvort vegur þyngra: Mannslíf eða verg landsframleiðsla? Langlífi eldriborgara eða geðheilbrigði ungs fólks? Þorláksmessutónleikar Bubba eða fullt skólastarf í janúar?

Kreddukenndar upphrópanir um frelsi handa öllum, konum og köllum, eru til lítils þegar kemur að því að standa vörð um borgaraleg réttindi. Það er aðeins þegar við horfumst í augu við þá staðreynd að frelsið er jafnvægislist, jafnt á tímum heimsfaraldurs sem öðrum dögum, að hægt er að hámarka frelsi allra.

Sóttvarnaaðgerðir eru tímabundnar. Sé umræddum ráðherrum annt um almennt frelsi í landinu væri gagn að því að þær litu sér nær.

Almenn trú á sögulok veldur því að við teljum oftast ólíklegt að hætta steðji að þeim réttindum sem við njótum hverju sinni. En í þeirri blindu trú felst ein mesta ógn við lýðræði, mannréttindi og frjálslynt samfélag.

Árið 2021 átti sjálfsákvörðunarréttur kvenna yfir eigin líkama víða undir högg að sækja á Vesturlöndum. Útlit er fyrir að á næsta ári snúi Hæstiréttur Bandaríkjanna við fordæmisgefandi úrskurði Roe gegn Wade frá árinu 1973, sem bannar ríkjum að takmarka rétt kvenna til þungunarrofs.

Hvað finnst Þórdísi Kolbrúnu og Áslaugu Örnu um þá Trump-ísku vendingu að flokksfélagi þeirra, sem kaus gegn frumvarpi Svandísar Svavarsdóttur um aukna heimild kvenna til þungunarrofs í fyrra, er nú orðinn dómsmálaráðherra í ríkisstjórn sem þær eiga sæti í? Hvernig rökstyðja þær andstöðu flokks síns við nýja stjórnarskrá sem styrkir frelsi og almenn borgararéttindi? Hvers vegna telja þær frelsi ráðandi afla trompa frelsi allra þegar kemur að eignarhaldi á auðlindum þjóðarinnar?

Í flæðarmálinu

Fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Tony Blair, varaði við því á árinu að við létum glepjast af sagnaforminu í baráttunni við kórónaveiruna. „Eitt af því fáa sem við vitum fyrir víst um Covid er þetta: Sú von sem við bárum í brjósti í upphafi um að krísan kæmi til með að markast af skýrri byrjun, miðju og endalokum átti ekki við rök að styðjast.“

Fullviss um að Covid-sögu minni væri lokið keypti ég flugmiða heim til Íslands í fyrsta sinn síðan faraldurinn skall á. Ég hefði átt að vita betur. Sólarhring fyrir brottför fékk fjölskyldan kóróna­vírusinn í jólagjöf, öðru sinni. Enginn skiptimiði fylgdi.

Frelsi, lýðræði og áramót eru ekki sögulok; þau eru flæðarmál. Gárur gæla við fætur okkar þar sem fjarar út og flæðir að. Í hvert sinn sem við teljum okkur hafa fundið hinn eina rétta stað í fjöruborðinu ber að öldu sem rennbleytir buxnaskálmarnar svo enn á ný þurfum við að færa okkur um set.

Megi sjávargangur ársins 2022 verða ykkur hagstæður.