Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, stóð af sér vantrauststillögu í breska þinginu í vikunni. Þingmenn hans eigin flokks knúðu fram atkvæðagreiðsluna og allir 359 þingmenn Íhaldsflokksins greiddu atkvæði.

Boris fékk þó ekki nema 211 atkvæði frá þingmönnum Íhaldsflokksins, sem þýðir að innan við 60 prósent þeirra styðja leiðtoga flokksins. 148 íhaldsmenn greiddu atkvæði gegn foringjanum.

Boris bar sig vel eftir að niðurstaðan var kunngerð, sagði hana afgerandi. Varla hef ur honum þó verið létt. Í sams konar atkvæðagreiðslu 2018 fékk Theresa May hærra hlutfall atkvæða frá þingmönnum Íhaldsflokksins. Hálfu ári síðar hrökklaðist hún úr embætti.

Boris fer seint í sögubækurnar sem einn af hinum stóru. Winston Churchill og Margaret Thatcher eiga þar vísan stað en Borisar verður líkast til helst minnst fyrir að verða fyrsti forsætisráðherrann sem er sektaður fyrir partíhald og fyllirí, og það á tímum þegar ríkisstjórn hans skipaði þegnum ríkisins að halda sig heima og virða samkomutakmarkanir.

Þá eru heldur betur að renna tvær grímur á landsmenn yfir Brexit. Í ljós hefur komið að ekki stendur steinn yfir steini í málflutningi Borisar og annarra lýðskrumara sem börðust fyrir útgöngu Bretlands úr ESB.

Útópían sem lofað var finnst ekki. Útgangan hefur ekki aðeins veikt Bretland heldur einnig alla Evrópu og ESB. Sundurlyndi lýðræðisþjóða er ávísun á uppgang og uppivöðslu lýðskrmara og herskárra einræðisherra eins og nýleg dæmi sýna.

Vafasamt er að Pútín hefði treyst sér til að ráðast með hernaði inn í Úkraínu nema vegna þess að hann skynjaði bresti í samstöðu Evrópuríkja.

Ólíklegt er að Boris Johnson hverfi sjálfviljugur úr embætti forsætisráðherra þrátt fyrir að stuðningur Íhaldsmanna við hann sé þorrinn.

Kann það að hjálpa honum að enginn frambærilegur eftirmaður er í sjónmáli. Síðustu leiðtogar Íhaldsflokksins hafa síður en svo verið frambærilegir og hér skal því spáð að Boris fjúki fyrr en seinna.