Fyrir nokkrum árum átti ég erindi við þáverandi ritstjóra þessa blaðs, Ólöfu Skaftadóttur, vegna umfjöllunar sem ég vann að og blaðið ætlaði að fjalla um. Eftir að erindi mitt við hana hafði verið tæmt fór spjall okkar um víðan völl eins stundum gerist. Rétt áður en við kvöddumst spurði hún hvort ég vissi um einhvern til að skrifa Bakþanka í blaðið. Ég nefndi einhver nöfn sem komu upp í hugann en hún hafnaði jafnharðan. Áður en við kvöddumst varð úr að ég skyldi senda inn pistil til prufu. Síðan hef ég skrifað 100 Bakþanka sem sumir hafa verið þokkalegir, fáir góðir og nokkrir slæmir.
Viðbrögð við þessum skrifum hafa verið mismikil, stundum hef ég fengið símtöl frá ókunnugu fólki sem hefur hrósað mér eða bent mér á eitthvað sem ég hef ekki farið rétt með.
Einu sinni fékk ég einhver leiðindi en það var símtal frá reiðri konu, sem ég hafði aldrei hitt né heyrt um, sem fullyrti að ég væri augljóslega að hóta henni með óbeinum hætti með skrifum mínum.
En til að koma mér að efninu í þessum sjálfhverfasta pistli sem ég hef skrifað, þá verður þessi pistill minn síðasti. Það er gott og hollt að þurfa að nota á sér höfuðið reglulega. Eins er það góð æfing að koma hugsunum sínum til skila í þessu litla plássi sem þessi þessi eindálkur fær, en allt á sinn tíma. 100 pistlar er líka meira en nóg. Ég þakka þér fyrir að hafa lesið þessa pistla og ég óska Fréttablaðinu langlífis og velfarnaðar í krefjandi umhverfi íslenskra fjölmiðla.