Í barna­bókunum um Emmu öfug­snúnu er eigin­lega öllu snúið á hvolf. Emma reynir að nota buxurnar fyrir peysu, ruglar hárið þegar hún á að greiða sér og er oft pirruð út í litla bróður sinn. Allar bækurnar enda samt vel að lokum. Ó­víst er hins vegar hvar saga BSRB og túlkun sam­takanna á niður­stöðum eigin skoðana­könnunar endar. Niður­stöðurnar eru tölur sem tala skýru máli. Túlkunin á þeim er hins vegar oft eins og Emma öfug­snúna hefði gert þær til þess að snúa eins og venju­lega öllu á haus. Fjöl­miðlar hafa lítinn tíma til þess að rýna í gögnin og birta gjarnan það sem mat­reitt er fyrir þá. Þess vegna er ó­hjá­kvæmi­legt að koma eftir­greindu á fram­færi og vonast til þess í leiðinni að BSRB haldi á­fram að kanna við­horf fólks til heil­brigðis­mála en hætti að rang­túlka niður­stöðurnar til þess að skara eld að eigin köku.

BSRB greiddi fyrir niður­stöðurnar

BSRB greiðir kostnaðinn fyrir þá við­horfs­könnun sem Fé­lags­vísinda­stofnun fram­kvæmdi fyrir Rúnar Vil­hjálms­son prófessor við Há­skóla Ís­lands. Niður­stöðurnar kynnti hann og túlkaði á fundi þann 26. maí síðast­liðinn. BSRB hefur auð­vitað ríka hags­muni sem stéttar­fé­lag ríkis­starfs­manna af því að störf hjá ríkinu séu sem flest. Þannig fjölgar fé­lags­mönnum og banda­lagið eflist.

Megin­inn­tak fundarins og um­fjöllun eftir hann varðar skoðanir lands­manna á rekstri einka­sjúkra­húsa. Margir ára­tugir eru síðan Landa­kots­spítali var eina einka­rekna sjúkra­húsið í Reykja­vík og og naut mikillar vel­vildar rétt eins og nunnu­spítalarnir í Hafnar­firði og Stykkis­hólmi á sínum tíma. Sá tími er hins vegar að baki og enginn er að óska eftir aftur­hvarfi til þeirrar for­tíðar.

Kol­rangar á­lyktanir dregnar

Helsta á­lyktun fundarins var að ís­lenskur al­menningur sé and­vígur einka­rekstri í heil­brigðis­kerfinu. Þetta kom fram í fram­sögunni, í um­ræðum og einnig í kjöl­farið í fyrir­sögnum margra fjöl­miðla. Stað­hæfingin rímar í raun alls ekki við niður­stöður skoðana­könnunarinnar.

Gögnin eru af­dráttar­laus um að þetta eigi vissu­lega við um sjúkra­hús­rekstur en ef aðrir þættir heil­brigðis­kerfisins eru skoðaðir er niður­staðan þver­öfug. Það er kjarni málsins. Mikil já­kvæðni er í garð sjálf­stæðs reksturs þegar kemur að hjúkrunar­heimilum, lækna­stofum, sjúkra­þjálfun, tann­lækningum full­orðinna og heilsu­gæslu. Í túlkun sinni á niður­stöðum könnunarinnar gerir banda­lagið þjóðinni upp skoðanir sem hún hefur ein­fald­lega ekki.

Að halda því fram fullum fetum að ís­lenskur al­menningur sé á móti þeim blandaða rekstri sem við búum við í dag og vilji að öll heil­brigðis­þjónusta sé bæði rekin og veitt af ríkinu er langt í frá það sem könnun Fé­lags­vísinda­stofnunar og Rúnars Vil­hjálms­sonar leiðir í ljós.

Mikil á­nægja með blandaðan rekstur í könnunum

Yfir 80% svar­enda í könnuninni vilja ríkis­rekna spítala­þjónustu á meðan 17% vilja blandaðan rekstur ríkis og einka­aðila. Mun fleiri eru hins vegar já­kvæðir í garð einka­rekinna heilsu­gæslu­stöðva enda röðuðu fjórar einka­reknar stöðvar sér í efstu fimm sætin í þjónustu­könnun sem var gerð á heilsu­gæslu­stöðvum í fyrra. Í þjónustu­könnun sem gerð var á nokkrum einka­reknum lækna­stöðvum sama ár voru við­skipta­vinir sér­lega á­nægðir með þjónustu sjálf­stætt starfandi sér­fræði­lækna og lækna­stöðva þeirra. Yfir 98% sögðust mjög á­nægðir eða frekar á­nægðir með þjónustuna og 97% að þeir myndu leita aftur til sama læknis og sömu lækna­stöðvar þegar þess þyrfti.

Frá 58% upp í 71% hlynnt blönduðum- eða einka­rekstri

Í könnun BSRB sögðust 58% að­spurðra hlynnt því að stærsti hluti sér­fræði­lækna reki sínar eigin sjálf­stæðu stofur í blönduðu kerfi með þjónustu spítalanna. Tæp 42% vildu hafa reksturinn fyrst og fremst hjá hinu opin­bera. En hvað skyldi það þýða? Hvað þýðir „fyrst og fremst hjá hinu opin­bera“ þegar spurt er hverjir eigi að reka heil­brigðis­þjónustuna? Getur verið að ein­hverjir svar­enda séu aðal­lega að meina það að hið opin­bera eigi að borga fyrir læknis­verkin en ekki endi­lega að veita þjónustuna?

Burt­séð frá því hvað býr að baki tölunum taka þær af öll tví­mæli um það að veru­legur meiri­hluti svar­enda styðji eitt­hvert form af sjálf­stæðum rekstri lækna­stofa. Að halda þver­öfugu fram, og byggja það á svörum um spítala­þjónustu, eru vægast sagt ó­vönduð vinnu­brögð. Svipað eða stærra hlut­fall vill sjálf­stæðan rekstur tann­lækninga full­orðinna (tæp 70%), sál­fræðinga (63%) og sjúkra­þjálfara (rúm 70%). BSRB og Rúnar Vil­hjálms­son létu undir höfuð leggjast að ræða þessar niður­stöður og fyrir vikið komust þær ekki heldur í fréttirnar.

Heil­brigðis­þjónustan er enn í dag nánast öll fjár­mögnuð af hinu opin­bera úr sam­eigin­legum trygginga­sjóði lands­manna. Um þann grund­vallar­þátt hefur þjóðin verið al­gjör­lega sam­mála alla tíð og vonandi er að hún verði ekki hrakin inn í það tvö­falda heil­brigðis­kerfi sem því miður blasir við ef ekki verður tafar­laust gripið í taumana.

Al­menningur vill blandað kerfi

Al­menningur á Ís­landi hafnar alls ekki því kerfi sem hann hefur búið við á Ís­landi á liðnum ára­tugum. Þvert á móti stað­festa alls kyns þjónustu­kannanir mikla á­nægju með fyrir­komu­lagið. Upp­haf þess má rekja allt aftur til ársins 1909. Blandað kerfi ríkis­rekinnar og einka­rekinnar heil­brigðis­þjónustu hefur verið afar far­sælt og skilað góðu, að­gengi­legu, sveigjan­legu, öruggu og ó­dýru kerfi. Sem eina af mörgum stað­festingum þess má nefna rann­sókn sem birtist í lækna­tíma­ritinu Lancet fyrir um tveimur árum en þar tróndi Ís­land eitt á toppnum varðandi gæði og að­gengi að læknis­þjónustu. Með öðrum orðum – að­gengi að sér­fræði­þjónustu á Ís­landi var það besta í heimi og gæðin til við­bótar í allra fremstu röð.

Hvers vegna ætti að rífa svo­leiðis kerfi niður og skipta í eitt­hvað allt annað án nokkurrar fag­legrar á­stæðu? Sér­stak­lega þegar fyrir­komu­lagið er hag­kvæmt í öllum saman­burði og enginn veit hvað á að taka við ef það verður lagt af. Sjálf­miðaður á­hugi BSRB á að fjölga fé­lags­mönnum sínum og öfug­snúnar túlkanir banda­lagsins á við­horfs­könnun mega aldrei ráða för í vexti og við­gangi heil­brigðis­kerfisins okkar sem lands­menn hafa af sam­heldni og metnaði byggt upp á löngum tíma. Til við­líka vit­leysu hefði ekki einu sinni hún Emma öfug­snúna haft hug­mynda­flug.