Samkvæmt nýrri könnun sem fjallað er um á forsíðu Fréttablaðsins í dag eru aðeins tæp tuttugu prósent landsmanna ánægð með að erlendum ferðamönnum sé farið að fjölga á ný. Þrjátíu prósent segjast frekar ánægð með þessa þróun sem þýðir að helmingur þjóðarinnar fagnar því að ferðaþjónustan sé tekin að rísa, þrátt fyrir bakslag í faraldrinum.

Það kemur á óvart að túristarnir njóti ekki meiri hylli en raun ber vitni, enda færir ferðaþjónustan og fjölgun ferðamanna í landinu á undanförnum árum okkur svo miklu meira en gjaldeyristekjur.

Tugir þúsunda Íslendinga starfa við ferðaþjónustu og fjöldi þeirra allan ársins hring. Án ferðaþjónustunnar væri varla um auðugan garð að gresja fyrir allt unga fólkið yfir sumartímann.

En ferðamennirnir færa okkur fleira en störf og tekjur, því með komu sinni auka þeir lífsgæði okkar á ótrúlega fjölbreyttan hátt.

Í miðborg Reykjavíkur, og raunar miðbæjum flestra betri kaupstaða landsins, má nú finna auðugt mannlíf og blómlegan rekstur veitingahúsa sem færa okkur það besta frá öllum heimshornum.

Þetta fundum við flest þegar við ferðuðumst öll innanlands í fyrrasumar og sáum með eigin augum, þrátt fyrir faraldurinn, hvernig landið hefur risið.

Við njótum nú ekki aðeins fjölbreytni á pari við helstu heimsborgir í miðborg okkar litlu Reykjavíkur, heldur getum við líka fundið gistingu, afþreyingu og fjölbreyttar veitingar í flestum smáþorpum og sveitum landsins. Náttúrulaugar spretta upp eins og gorkúlur um allt land en framkvæmdir sem þarf til að koma upp slíkum lúxusbaðstöðum hefðu fáir hætt sér út í ef aðeins nokkrar hræður vildu skola af sér. Litlar líkur eru á að hægt væri að fá eþíópískan mat á Flúðum ef þorpsbúarnir væru einu viðskiptavinirnir en í krafti fjöldans njóta þeir nú heimsmenningar í sinni heimabyggð.

Enn eru ónefnd þau tækifæri sem fjölgun erlendra ferðamanna tilfæra fyrir okkar eigin ferðavenjur. Þessi jákvæða þróun hefur gert Íslendingum mögulegt að reka tvö flugfélög sem fljúga ekki aðeins með ferðamenn hingað heldur gera okkur líka kleift að skoða heiminn á betri kjörum en fyrir örfáum áratugum. Og þau eru ekki einu flugfélögin sem fljúga til og frá Íslandi.

Þá hafa Airbnb og sambærileg fyrirtæki, sem íslenskar hótelkeðjur hafa kennt Íslendingum að hata, ekki aðeins gert okkur kleift að finna gistingu erlendis á hagstæðara verði en áður, heldur hafa fjölmargar fjölskyldur lært það sem er raunverulegur tilgangur Airbnb: bjóða heimili sín erlendum ferðamönnum í því skyni að komast sjálfar í sumarfrí til áfangastaða sem þær hefðu annars ekki efni á að heimsækja.

Hatur á þeim fjölskyldum sem drýgja tekjurnar með útleigu til erlendra ferðamanna er álíka óskiljanlegt og hatur á erlendum ferðamönnum. Það er rannsóknarefni hve margar fjölskyldur björguðu sér frá gjaldþroti í kjölfar efnahagshrunsins með útleigu á herbergi, bílskúr eða öðrum vistarverum sem sjá mátti af, til ferðamanna. Slíkum tækifærum ber að fagna en hvorki fordæma né skattpína.