Elísabet II. Bretadrottning var formlega kvödd í gær, á fremur dumbungslegum mánudegi í Lundúnaborg. Um heim allan fylgdist fólk með langri og tilkomumikilli dagskrá útfararinnar í beinni útsendingu þar sem drottningin sem ríkt hafði í 70 ár var kvödd með virktum.

Eftir sjö áratugi í hásætinu var það dauðinn sem tók af henni völdin sem sonur hennar Karl III. hefur nú tekið við. Elísabet, sem var aðeins 26 ára þegar hún tók við krúnunni eftir fráfall föður síns, hefur lifað meira en tímana tvenna og náði að vera sameiningartákn á róstusömum tímum þegar þessi unga móðir varð tákn vonar. Drottningin sem eltist og þróaðist undir vökulum augum almennings var jafnframt sú fyrsta sem upplifði slíkt og færði konungsfjölskylduna þannig nær almenningi. Elísabet, sem tók við Bretlandi sem heimsveldi og starfaði í valdatíð sinni með 15 forsætisráðherrum, kvaddi allt annað land en hún fæddist inn í. Það voru ekki völdin sem stjórnuðu Elísabetu, heldur skyldurnar og komu hennar eigin langanir, þarfir og jafnvel fjölskylda þar á eftir. Eiginleikar sem þjóð hennar bæði elskaði hana fyrir og gagnrýndi.

Undanfarna áratugi hefur gagnrýni á konungsfjölskylduna sífellt orðið háværri og segja margir að framtíð konungdæmisins ráðist á næstu áratugum. Víst er að fráfall Elísabetar er vatn á þá myllu enda stendur sonur hennar Karl henni langt að baki í vinsældum og virðingu.

Elísabet tók við á umbrotatímum og aftur upplifir þjóð hennar umbrotatíma. Það er kreppa í Bretlandi, nýr forsætisráðherra er nýtekinn við, þjóðin er enn klofin vegna Brexit, verðbólgan fer vaxandi og orkukreppa er yfirvofandi. Á meðan flykkist þjóð hennar út á götur til að kveðja drottningu sína, í stærstu athöfn sem haldin hefur verið í áraraðir, eða jafnvel nokkurn tíma. Kostnaður við útförina hefur ekki verið gefinn upp en vitað er að hann muni hlaupa á milljónum punda.

Konungsins sem nú er tekinn við bíður ærið verkefni við að sameina þjóð sína, lægja öldurnar, halda breska samveldinu á lífi og marka skýra stefnu um framhaldið. Jafnframt þarf hann að telja þjóð sinni áfram trú um að það sé prýðishugmynd að setja gríðarlega fjármuni í tildur og prjál í kringum fólk sem er sífelld uppspretta skandala og virðist svo sjálft þjást í þeim gríðarlega uppskrúfuðu, heftu og forneskjulegu aðstæðum sem það lifir við.

Karl III. er á áttræðisaldri en næstu erfingjar krúnunnar eru Vilhjálmur sonur hans og því næst Georg – ef sýningin heldur áfram.

Líklega höfum við kvatt síðustu drottningu Bretlands.